Fara í efni

Stóra stjórnmálafölsunarmálið!!

Þrjú stjórnmálagallerí hafa nú auglýst vörur sínar látlaust í tvo mánuði í blöðum, útvarpi og stjónvarpi. Ekki nenni ég að eyða orku minni í Sjálfstæðisgalleríið enda eru þar alltaf sömu verkin gömlu meistaranna í boði. 

Gallerí Dóra


Hin galleríin tvö eru meira spennandi að því leytinu til að þau eru framsæknari og þar er líka skipt um málverk og höggmyndir rétt eins og skó. Annars hefur farið fyrir mér eins og mörgum öðrum sem hafa heimsótt Framsóknargalleríið að ég hef orðið dálítið valtur á fótunum þegar á líður og skilst mér að skýringin sé sú að gólfið sé þannig hannað að í því sé veltibúnaður sem ræstur er eftir að léttar veitingar hafa verið bornar fram. Þá er afar skemmtilegur effekt í lýsingunni í húsinu að því leytinu að maður sér allt tvöfalt á endanum. Þannig fannst mér gríðarleg tvöfeldni í svipnum á Halldóri formanni sem hangir eins og búrhveli upp á veggnum hægra megin við fatahengið með vélbyssu í annarri hendi en gervilimi í hinni.

Gallerí Samfylking

Samfylkingargalleríð tekur öllu öðru fram. Þar eru ekki bara fögur loforðaverk um alla veggi, loft og gólf heldur er líka boðið upp á gjörninga þar sem leiðtoginn mikli bregður sér í allra kvikinda líki og dvergarnir 17 standa að baki henni og klappa sér til blóðs. Í gærkvöldi mætti leiðtoginn t.a.m inn í stofur landsmanna í gervi forseta. Frábær gjörningur, eina sem vantaði upp á trúverðugleikann var að fá Bessastaðabaðstofu lánaða og hefði nú átt að vera auðsótt mál eftir að hún tók vesalinginn þar á bæ upp á sína arma.

Ég, Jesús og pabbi hans

Í Samfylkingargalleríinu fá margir litlir listamenn að sýna en fostjórinn hefur þó frátekið 95% af sýningarplássinu enda afkastamikill á sínu sviði. Sérstaklega athyglisverðar eru klippimyndir forstjórans þar sem öllu ægir saman. Þar má sjá andlit Jóns Ólafssonar límt á skattaskýrslu, þar má sjá Össur Skarphéðinsson upp á þaki Landsímahússins að skipta um skilti sem á stendur Og Skódafón, þar má sjá Jóhönnu Sigurðardóttur prenta afsláttarkort fyrir sjúka og öryrkja, þar má sjá Mörð Árnason styðja forsetann og biskupinn út úr Stjórnarráðinu og Davíð á eftir þeim í djöfulslíki með slitna orðabók og reglustiku, þar má auðvitað sjá foringjann sjálfan og hann stendur ekki auðum höndum, er skrúfa fyrir vatnsinntak á stóru fjölbýlishúsi með aðstoð forstjóra Kóka kóla sem þegar er búinn að merkja sér allar vatnspípur í bak og fyrir. Þannig mætti áfram telja. Þetta er stórkostlegt allt saman. En sannkallaður hápunktur sýningarinnar er myndin “Ég, Jesús og pabbi hans í lýðræðislegri samræðulist.” Og við munn leiðtoga Samfylkingarinnar, sem situr fyrir miðri mynd, hafa verið rituð á hebresku eftirfarandi orð: “Hví efist þið feðgar.” Ja, það er nú það. Það skyldi nú ekki vera að full ástæða sé að efast um þann hrærigraut sem Samfylkingin býður upp á. Hún vill allt fyrir alla gera og meira að segja fyrir Guð almáttugan og Jesú Krist?. Þeim er eins og okkur boðið upp á lækkaða skatta, stórhækkaðar barnabætur, stóreflt menntakerfi og velferðarkerfi, boðið upp á allt sem nöfnum má nefna og jákvætt má kalla. Að vísu hagnast þeir feðgar ekkert á lækkuðum erfðafjárskatti en það mátti svo reyna.

Lokað laugardaginn 10. maí

Jú, þau eru dularfull þessi gallerí og ég hef áreiðanlegar upplýsingar um það frá kunningja mínum í löggunni að þeim verði lokað laugardaginn 10. maí. Af þeim hefur vissulega verið menningarauki – en aðeins um stund - alveg eins og reyndin var í stóra málverkafölsunarmálinu. Það mál er nú fyrir dómstólunum. Það er því rétt fyrir viðskiptavini að fara varlega, gleypa ekki við glansmyndunum og tæknibrellunum, sérstaklega í Samfylkingar- og Framsóknargalleríunum. Þvert á móti er mikilvægt að gera upp hug sinn á yfirvegaðan hátt áður en það kaupir eitthvað í þessum búllum. Það er til miklu betra og áreiðanlegra gallerí og ég skora á allt félagshyggjufólk að veðja á það. Nú verða allir sem vettlingi geta valdið að styrkja gallerí X-U, þar er allt á hreinu, engin  fölsuð verk til sölu.

Þjóðólfur