Tækifæri fyrir atvinnulífið

Blessaður Ögmundur.
Fötin skapa manninn man ég að sagt var við bræður mína um miðja síðustu öld þegar þeir þráuðust við að skella sér í betri gallann á hátíðis og tyllidögum. Þetta skaust í gegnum huga minn þegar ég sá kosningauglýsinguna á blaðsíðu 3 í Morgunblaðinu í dag, laugardag. Þar stendur frambjóðandi einn  á ljósum rykfrakka og horfist í augu við okkur svefndrukkna lesendur og leikur um munn hans undarlegt glott. Glottið verður fyrst til þess að við förum að skoða betur myndina. Og hvað kemur þá í ljós? Eiga þeir alveg saman búkurinn og brosið? Er ekki kroppurinn skroppinn eitthvað saman? Eða höfuðið haft örlítið stærra en frakkaefnið sem undir stendur? Ósjálfrátt velti ég því fyrir mér Ögmundur hvort photoshop stillingarnar hafi hrokkið eitthvað til í myndvinnslunni, eða getur verið að yngri maður hafi léð höfðinu hans líkama sinn? Þú varst nú lengi fréttamaður í sjónvarpi Ögmundur, þessum mikla blöfffjölmiðli, heldurðu að auglýsingadrengirnir hafi sett forsætis í fótósjoppu? Yfirskrift auglýsingarinnar, Tækifæri fyrir atvinnulífið, á kannski að undirstrika hvað hægt er að ná langt í tölvuvinnslunni. Það er ekki allt sem sýnist í kosningabaráttunni.
Ólína

 

Fréttabréf