Fara í efni

Markús, Bjarni, Þorsteinn og beinar auglýsingar

Sæll Ögmundur.
Þeir voru að sýna langa auglýsingamynd í dagskrárefnislíki Markús Örn og Bjarni Guðmundsson. Í dagskrárkynningu hét hún Á ferð og flugi um Suður-Afríku. Halda mátti að efnið væri auglýsing á borð við samfylkingarauglýsingu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem tekin var í aristókratískri byggingu í Þingholtunum í hvítu og átti að höfða til íslensks almúga, en nei, þetta átti að vera dagskrárgerð. Þarna var minnst á ferðafrömuðinn góðkunna sem flytur fólk til fjarlægra, “spennandi” staða. Þarna var minnst á VISA sem sér landsmönnum á ferðalögum fyrir korti til að láta strauja og að endingu var þarna kíkt á rauðvínsframleiðanda. Ætli Austurbakki, sem pantar inn fyrir ÁTVR, hafi rauðvín frá þessum framleiðanda á boðstólum fyrir landsmenn? Datt það svona í hug þar sem Austurbakki styrkti þáttinn. Framkvæmdavaldið hefur falið þeim Markúsi Erni Antonssyni og Bjarna Guðmundssyni mikinn trúnað og þeir svo Þorsteini með því að fela þeim rekstur ríkisútvarpsins. Þessir menn fá til daglegrar ráðstöfunar lögboðin afnotagjöld og vald yfir því mikla menningarapparati sem ríkisútvarpið gæti verið. Þeir fá líka til ráðstöfunar sjónvarps,- og útvarpsrásir og dagskrártíma sem er takmörkuð auðlind. Þessum tíma kjósa þeir að ráðstafa í beinar og óbeinar auglýsingar eins og sá þáttur vitnar um sem settur var á dagskrá næst á undan Attenborough. Látum plebbaháttinn liggja milli hluta enda kemur hann ekki á óvart, en finnst þér Ögmundur réttlætanlegt að sjónvarp í almannaþágu geti hagað sér svona á markaði í sjálfu sér og gagnvart til dæmis öðrum miðlum? Og svo þetta Ögmundur: Þegar búið er að niðurlægja Sjónvarpið með starfsemi í líkingu við samsetninginn sem hér er drepið á og þegar haft er í  huga fækkun fjölmiðla í landinu hvað finnst þér þá um hugmyndina að selja Sjónvarpið og tryggja með sölunni varanlega dreift eignarhald, en reka útvarpið áfram sem öflugt útvarp í almannaþágu?
Ólína

Heil og sæl Ólína.
Þú ert ómyrk í máli eins og fyrri daginn. Ekki er ég á því máli að skilja beri sjónvarp frá hljóðvarpi í RÚV og selja það fyrrnefnda. En hitt skal ég taka undir með þér að stjórnendum Ríkisútvarpsins er falin mikil ábyrgð sem þeir verða að geta risið undir. Ég sá því miður ekki þáttinn sem þú vitnar í frá í gærkvöldi en oft hefur það hins vegar farið fyrir brjóstið á mér hve langt RÚV gengur í hvers kyns kostun þátta. Að öðru leyti vísa ég í athugasemdir mínar í Brennidepli í dag.
Með bestu kveðju,
Ögmundur