Fara í efni

Raup af beini meistara

Í skólaskýrslum Menntaskólans á Akureyri frá fyrri árum má lesa sér til um atvinnu foreldra þeirra sem þangað sóttu sér þekkingu og menntun. Bændur, verkamenn, sjómenn og iðnverkamenn virðast hafa átt margar dætur og syni í MA, enda fjölmennar starfsstéttir. Skólinn þar fyrir utan háborg skólamenntunar landsbyggðarfólks lengi fram eftir öldinni sem leið og heimavistardvölin sá bjarghringur margra fátækra fjölskyldna sem varð til þess að þeim tókst að styðja barn sitt og stundum börn sín til mennta. Kannski gufuðu aðstæður fátæks fólks upp eftir Tryggvi Gíslason varð meistari í MA. Kannski varð hann aldrei var við systurnar og bræðurna sem ekki komu í MA. Kannski velti hann aldrei fyrir sér af hverju bróðir stúlkunnar í 6. C, sem stóð sig svo ljómandi vel á stúdentsprófinu í vor, kom ekki í skólann haustið eftir. Hugsaði sér jafnvel að hann hefði farið í MR. Kannski var meistari svo móður eftir alla baráttuna gegn brennivíninu, sem honum mun hafa þótt pesta stofnunina eftir skólameistaratíð þess mæta manns Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum, að honum yfirsást það sem aðrir sáu þá? Og þó. Meistarinn segir í þjóðhátíðarviðtali við Morgunblaðið: “Að mínum dómi er að verða til einskonar lágstétt í þessu landi og þá eðli málssins samkvæmt hástétt.” Þetta bendir til að maðurinn gerir sér bærilega grein fyrir að fátt hefur breyst í íslensku stéttskiptu þjóðfélagi frá því hann tók við embætti skólameistara haustið 1972 og hóf endurreisn norðanskólans. Og hann bætir við af hvalbeini hins upphafna í þjóðhátíðarviðtalinu í Morgunblaðinu: “...og ég hef dálitlar áhyggjur af lágstéttinni sem hér virðist vera að verða til.” Alltaf smekklegur Tryggvi, en á það til að toppa sig. Í öllu rausinu, sem stundum jaðrar við raup, kemst meistarinn nefnilega að því að eðlilegt sé að taka upp skólagjöld í menntaskólum landsins og rökstuðningurinn er jafn stórbrotinn og umhyggjan fyrir “lágstéttinni” virðist rista djúpt: “...vegna hins einfalda sannleika að allt sem er ókeypis þykir einskis virði.” Það birtist mynd með viðtalinu við Tryggva Gíslason í Morgunblaðinu. Í forgrunni er hvalbeinið. Á veggnum að baki honum fimm skólameistarar, fimm virtir mannvinir. Meistarar sem hver og einn þekkti dæmin um nemendur sem aldrei komu til skóla um haustið af fjárhagsástæðum. Ég fullyrði að allir áttuðu sig nokkuð vel á íslenska stéttasamfélaginu. Engum hefði dottið í hug að leggja til skólagjöld á nemendur til þess eins að uppfræða þá um gildi eða virði þeirrar menntunar sem þeir áttu kost á að sækja sér í MA. Allir hefðu sennilega tekið sjálfan meistara Tryggva á beinið fyrir dónaskap í garð fátæks fólks og ef ekki fyrir það þá fyrir rökvillur og raup. Í Mogganum slær meistari um sig með latneskum frösum og enskum. Í ljósi ummæla meistara í viðtalinu finnst mér sjálfsagt að kasta fram einum frasanum sem eignaður er Walteri Lippmann: “Where all men think alike, no one thinks very much.” Það er illa komið fyrir norðanskólanum sé þessi ríkjandi hugsunin, eða er kannski illa komið fyrir íslenskum menntamönnum?Ólína