Fara í efni

Ég bara hló

Oft er ég búinn að hlusta agndofa, sár og reiður, á forsætisráðherra og utanríkisráðherra lands okkar, lúta Bandaríkjastjórn í slíkri auðmýkt að leitun hlýtur að vera öðru eins nema þá ef til vill hjá vesölustu bananalýðveldum en það hugtak skilst mér vera  notað um auðsveipustu fylgiríki Bandaríkjanna. Og nú hafa þeir mætt í Kastljós Sjónvarpsins, fyrst Halldór og síðan  Davíð til að tjá sig um utanríkismál. Þessi viðtöl voru bæði yfirgengileg af þeirra hálfu. Ég fann þegar það gerðist innra með mér að skyndilega hætti ég að reiðast, heldur fylltist ég vorkunnsemi. Ekki stóð það lengi að ég vorkenndi þeim félögum. Ég verð að játa, að ég er ekki meira góðmenni en svo að á endanum gat ég ekki annað en skellt upp úr. Ég bara hló. Hvað er annað hægt að gera, ef maður vill halda andlegu jafnvægi  með þessa ráðamenn við stýrið?
Davíð sagði að Bandaríkjamenn hrifust af því hvað Íslendingar hefðu "traustar skoðanir."  Þegar Bandaríkjamenn "ættu í deilum við aðra" , þá "höldum við okkar striki og okkar ró." Auðvitað þyrftu Íslendingar að gæta sín á því að láta ekki "ólgu eða áróðursbylgjur" í Evrópu koma sér úr jafnvægi. Og varðandi hvort væri heppilegra að halda sig undir væng Bandaríkjanna eða Evrópu þá þótti Davíð Oddssyni ekki saman að jafna. Bandaríkin væru miklu öflugri, þess vegna ættum við að vera í þeirra liði.
Viljum við virkilega láta tala svona í okkar nafni? Að við eigum að reikna út hver sé sterkastur áður en við ákveðum hverjum við fylgjum að málum?! Skítt með málstaðinn! Og nú þegar heimurinn er að vakna til vitundar um lygarnar og blekkingarnar sem beitt hefur verið til að komast yfir olíuauðlegð Íraks, þá hælir forsætisráðherra Íslands sér af því að við látum engan bilbug á okkur finna; Íslendingar hlusti ekki  á nein rök, haldi sinni ró, með "traustar skoðanir"! Í fréttaþáttum er hvorki forsætisráðherra né utanríkisráðherra beðnir um að skilgreina fyrir okkur varnarþörf Íslands, hvað þeir leggi til grundvallar í viðræðum sem þeir eiga fyrir Íslands hönd.
Ég leyfi mér að gagnrýna fjölmiðlana fyrir að taka í mál að hlusta á kröfur Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar  um að mæta aðeins einir í viðtöl. Það er augljóst að þeir treysta sér ekki til að mæta andstæðingum sínum í pólitíkinni. Ef þeir halda áfram að gera þessar kröfur þá væri nær að hætta að láta þá mæta í Kastljós, senda þá bara til Gísla Marteins. Þar geta þeir barið sér á brjóst og  fengið að hlæja og brosa. Jafnvel taka lagið.
Hafsteinn Orri