Fara í efni

Blöndal og bankarnir

Blessaður Ögmundur.
Það er langt síðan að ég gerði mér grein fyrir því að Pétur H. Blöndal væri skarpur þegar peningar eru annars vegar og sannfærðist enn betur um það þegar þið ræddust við í Kastljósinu um daginn. Þar mærði hann nýja rekstrarformið á gömlu þjóðbönkunum, hélt því fram að fólk sýslaði illa með peninga nema sína eigin og vildi með því koma höggi á lífeyrissjóðina. En ég spyr: Með hvaða peninga eru bankarnir að sýsla? Ég veit ekki betur en allir á mínu heimili hafi falið bönkunum umsýslu sinna peninga með einum eða öðrum hætti. Þar á meðal hefur sonur minn verið með bankabók í hlutafélagsbankanum Íslandsbanka frá fæðingu. Höfum við feðgarnir allt gott um þann banka að segja nema í einu tilviki. Þannig var að við fórum að kanna mismunandi innlánsform og sáum að bankabók stráksins var langt frá því að vera í betri kantinum. Við fórum í bankann og ég spurði hvort stofnunin hefði engum skyldum að gegna, ekki síst gagnvart börnum og gamalmennum, með því m.a. að kynna viðskiptamönnum sínum bestu ávöxtunarleiðirnar. Ég spurði hvort bankarnir ættu ekki að senda viðskiptamönnum sínum til margra ára bréf upp á svona nokkuð svo að þeir gætu breytt í samræmi við það. Afsakandi svar þjónustufulltrúans var: bankarnir mega það ekki, þeir mega ekki skipta sér af því hvaða ávöxtun fólk velur sér! Þetta kalla ég að fara illa með annarra manna fé. Skyldu forsvarsmenn lífeyrissjóðanna, sem sýsla með annarra manna peninga rétt eins og bankarnir, starfa eftir sömu reglum? Kemur þeim það bara ekkert við hvernig þeir fara með annarra manna fé? Pétur H. Blöndal á eflaust svar við þessu eins og öllu öðru þegar peningar eru annars vegar. Og kannski á hann eftir að kæra mig fyrir barnaverndarnefnd af því að ég sinnti ekki þeirri skyldu minni sem foreldri að leiðbeina barni mínu um bestu ávöxtunarleiðirnar í bönkunum.
Kveðja, R. Árnason