Fara í efni

Ólafur í skýjunum

Nýverið þáði forseti Íslands boð um að ferðast í einkaþotu frá Rússlandi til Englands til að horfa á fótboltaleik með milljarðamæringnum Roman Abramovits, landstjóra í Chukotska í Rússlandi og eiganda fótboltaklúbbsins Chelsea. Í fréttum af heimsókn Ólafs Ragnars til Chukotska kom fram að hann hefði borið augum glæstar skólabyggingar sem Abramovits “hefur fjármagnað af eigin fé í þágu fólksins sem hér býr”. Já, góður maður hann Roman Abramovits.            
Á þessu öllu hefur verið vakin athygli hér á heimasíðunni, sem og vafasömum ferli Abramovits. Er sannarlega þarft að minna forseta Íslands á að margs ber að gæta í háu embætti - og þar á meðal að lenda ekki vafasömum félagsskap. Vinskapurinn við 19. ríkasta mann í Evrópu, áðurnefndan Abramovits XIX., gæti flokkast undir dæmi þar um.
Skrýtin tilfinning – og vísast alröng - en stundum finnst mér eins og það ískri örlítið í einhverri hégómagirnd hjá Ólafi, rétt eins og hjá stráklingi sem ekur óvarlega um götur bæjarins og lætur væla í dekkjunum. Tilfinningin hjá stráknum er auðvitað einstök meðan á fjörinu stendur. En hjólbarðarnir spænast upp og þeir eru rándýrir. Þessu má strákurinn ekki gleyma og eins er um forseta Íslands – hann verður ávallt að huga að kostnaðarþættinum  þegar virðing forsetaembættisins er annars vegar. Það gerir hann líka nær undantekningarlaust. En þá sjaldan að út af bregður er íslenska þjóðin því fegnust að fá hann aftur niður úr háloftunum og á blessaða fósturjörðina. Ég segi því bara að lokum: Velkominn heim frá Chukotska og Lundúnum, Ólafur minn!
Þjóðólfur