Fara í efni

Á ekki að veita Davíð og Halldóri áminningu?

 

Sæll Ögmundur! Nú hefur öldungadeild ástralska þingsins veitt John Howard forsætisráðherra formlegar ávítur fyrir blekkingar hans í undanfara Íraksstríðsins. Mig langar til að spyrja þig hvort til greina komi að leggja fyrir Alþingi Íslendinga tillögu um að áminna utanríkisráðherra og forsætisráðherra fyrir alla þær rangfærslur sem þeir hafa látið út úr sér um þetta mál.
Kveðjur,
Haukur

Heill og sæll Haukur og þakka þér fyrir bréfið.
Mér finnast þessir íslensku ráðamenn sem þú nefnir, forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann, hafa hagað sé á mjög ámælisverðan hátt í þessu máli. Þeir hafa, nánst í einu og öllu, fylgt línunni frá þeim Bush Bandaríkjaforseta og Blair forsætisráð’herra Bretlands, sem báðir hafa orðið uppvísir að blekkingum. Það versta við “okkar” menn og þeirra framkomu var að þeir skyldu upp á sitt eindæmi setja Íslendinga á lista “hinna viljugu”, en það voru þær þjóðir nefndar sem fylgdu stríðsherrunum skilyrðislaust. Þessi mál verða tekin upp á þingi fljótlega og munum við ráða okkar ráðum í ljósi viðbragða þar á bæ.


Ögmundur