Fara í efni

Í þjónustu ítalskra dóna

Komdu sæll Ögmundur.
Þeir sem nenna að setja sig inn í ráðslag forsvarsmanna og fulltrúa ítalska verkatakafyrirtækisins á austfirska hálendinu gagnvart verkamönnum komast fyrirhafnarlítið að því að þeir eru dónar uppá íslensku.  Meira að segja silkihúfur Landsvirkjunar hafa áhyggjur, en þeir láta yfirleitt ekki smotterí eins og aðbúnað erlendra verkamanna koma sér úr jafnvægi. Það hét á máli þeirra að fyrirtækið hefði áhyggjur af ímynd ítalska fyrirtækisins. Nú virðist það hafa gerst að embættismenn íslensku utanríkisþjónustunnar hafi verið fengnir til að undirbúa samræður yfirmanns síns og starfsbróður hans, ítalska utanríkisráðherrans. Ítalski utanríkisráðherrann fullvissaði nefnilega Halldór Ásgrímsson um það á fundi í Róm að ítölsku dónarnir ætluðu nú að fara að haga sér betur, hæstráðendur Impregíló hefðu fullyrt það, og verðandi forsætisráðherra (trúi því hver sem vill) lét svo um mælt sjálfur að honum þætti agalega vænt um það. Þessi þáttur viðræðnanna var undirbúinn sérstaklega af hálfu ráðuneytisins að því best er vitað. Nú geta menn velt því fyrir sér hvort utanríkisráðherrarnir hafi verið að ræða statusinn á skótaui og nærskyrtum portúgalskra verkamanna í smæstu atriðum suður í Róm og hvort virðulegir embættismenn utanríkisþjónustu geti haldið uppi samræðum um svo hversdagslega nytjahluti. Líklegra þykir mér að okkar maður hafi í Róm lýst áhyggjum sínum af ímynd ítalska verktakafyrirtækisins og slæmum áhrifum dónanna á Kárahnjúkabixið í heild sinni. Furðulegt að menn skuli ekki hafa gert í þessu tilviki eins og í byrjun að fara með kárahnjúkavandann beint inn á gólf hjá Berlóskóní, hæstráðanda, og láta hann redda málinu í kompaníi við Bechtel verktakann sem annars er upptekinn við uppbygginguna í Írak. Hvort utanríkisráðuneytið á að ganga hagsmuna ítalskra dóna er svo önnur spurning.
Ólína