Kommar og jafnvel hommar

Eftir því sem Halldór Laxness varð beittari í samfélagsgagnrýni sinni fyrir miðja síðustu öld sökk hann sem fleinn dýpra og dýpra í hold íslensku borgarastéttarinnar - bæði þess hluta sem hægt var að kalla upplýstan og svo plebbana. Í fyrsta lagi vegna þess að hann ógnaði með skrifum sínum almennum hagsmunum borgarastéttarinnar með því að afhjúpa lífsmynstur hennar og í öðru lagi vegna þess að Halldór komst bærilega af, án þess að þurfa að liggja á fjórum fótum gagnvart valdsmönnum atvinnulífs, ríkis og kirkju og var ekki háður þeim. Um þetta skrifaði höfundurinn eina allra bestu bók sína, Heimsljós.
Ein leið til að eyðileggja Halldór, sem tókst ekki þá, var í vankunnáttunni að kenna honum óbeint um ógnaröldina í Moskvu 1936 til 1938. Var þetta gert til að eyðileggja þann sem vildi ekki verða eign þeirra, sem skilgreindu og smækkuðu lífið og tilveruna til að vera einhvers konar fall af einkaeignarréttinum.
Rithöfundurinn Halldór átti að sjálfsögðu að hypja sig frá Moskvu á sínum tíma og upplýsa þjóðir heims um það sem hann vissi og grunaði um samviskulaus grimmdarverk stalínistanna í Rússlandi. Það vafðist eitthvað fyrir honum, eða tafðist, en það er langur vegur frá þeim tímabundnu mistökum, eða töf, og svo því að láta í veðri vaka að höfundurinn hafi átt þarna beinan hlut að máli. Plebbarnir og hinir upplýstu  sameinuðust í því þá eins og stundum nú að kalla Halldór komma í þeirri merkingunni, að hann beri ríka ábyrgð á þeirri stjórnmálastefnu sem kommúnistar beittu gegn alþýðu manna í viðkomandi löndum, en umfram allt þeim mannlegu þjáningum sem voru fylgifiskar kúgunarinnar. Allt fram á þennan dag hafa íslenskar hliðstæður Josephs Raymonds notað hvert tækifæri til að grafa undan rithöfundinum. Ástæðan er auðvitað sú sama nú og hún var þá. Ef þú getur ekki eignast það sem eftirsóknarvert er þá eyðileggðu það frekar en að láta aðra njóta þess.

Uppréttir og liggjandi

               

Sá sem stendur uppréttur skyggir auðvitað á þann sem liggur flatur fyrir valdinu. Sá sem skrifar smásögur, eða lengri verk,  af grynnri gerðinni, stendur jafnan í skugga þess sem skrifar stóra sögu alveg eins og sá sem hnoðar saman sálmi er sjálfkrafa lagður á mælistikuna séra Matthías Jochumsson. Oft finnst manni að hinir skuggalegu leggi sig fram um að niðurlægja þá og sverta sem standa upp úr og vilja ekki þóknast valdinu. Aðferðirnar eru gamal kunnar.  
Joseph Raymond er meistarinn sem helgaði líf sitt árásum á menntamenn, gyðinga, vinstri menn og verkalýðsleiðtoga í Bandaríkjunum á sínum tíma og hjá honum var lykilatriðið einmitt að klína á menn kommastimplinum. Ef það ekki hreif þá fór hann og fylgismenn hans örlítið neðar í skítahauginn, sem ausið var úr, og menn voru svo smekklega kallaðir hommar. Þetta var á sjötta áratugnum og trakteringar McCarthys og félaga það versta sem menn í Bandaríkjunum gátu lent í. Þekkt er að áróður þessi gekk svo nærri sumum að þeir frömdu sjálfsmorð eða játuðu sakir á aðra menn til þess sjálfir að bjarga sálarheill sinni um stund.  
McCarthy átti sér marga meðreiðarsveina. Marga menn sem stóðu þöglir hjá og horfðu uppá þann ljóta leik sem hæst stóð 1953 til 1955. Aldrei hafa plebbar haft jafn mikil völd og þeir höfðu í Bandaríkjunum þá, í valdastéttum kommúnistanna í austri og í þúsund ára ríki nasismans rúmum áratug fyrr. Aðferðirnar sem beitt var gegn þeim sem ekki lögðust á fjóra fætur fyrir framan valdið voru alls staðar þær sömu.  
Menn voru handbendi auðvaldsins og óvinir fólksins í austri, óhreinir og gyðingar í Mið-Evrópu, og kommar í Bandaríkjunum og hommar ef kommúnistastimpillinn dugði ekki. Menn skyldu lúffa, makka rétt og taka sporið með valdinu. Alveg eins og Halldór Laxness lýsir svo meistaralega þegar Júel Júel sjálfur ræðst að skáldinu í Heimsljósi og ætlar að troða hann niðrí skítinn stígvélaður á báðum. Þetta er mergjuð lýsing þar sem nóbellinn dregur borgarastéttina sundur og saman í háði.
Það sem alltaf hefur valdið henni, bæði þeim upplýstu og plebbunum, mestu hugarangri og pirringi og það sem enn situr sem fleinni í holdi hennar er að stassjónistarnir þola ekki og þoldu ekki að láta lýsa sér sem illa upplýstum smámennum, sbr. "...þá tók stassjónistinn þvert fyrir að hafa manneskjur með fullu viti nálægt sér,...". Þar fyrir utan þola ráðmenn ekki skáldinu, eða einstaklingnum, það frelsi að vilja ekki bukka sig og beygja. Það frelsi að vera ekki tilbúinn að leggjast á fjóra fætur og láta valdið troða sig fótum. Leiðtogar alvaldsins þoldu ekki þessi skáld þá og þola þau ekki nú. Verst þykir þeim ef þeir bjóða borgun sem ekki er þegin.

Hver á Laxness?  

Mér datt þetta í hug Ögmundur þegar ég las grein um Halldór Laxness í Lesbók Morgunblaðsins sem bar titilinn Hver á Laxness? Svolítið yfirborðskennd grein en áhugaverð engu að síður. Greinin fjallaði öðrum þræði um kaup valdsins á þeim dauðlegu hlutum sem skáldið lét eftir sig og hún gefur tilefni til vangaveltna um þjóðskáldið og eignarhaldið á því og handhöfum valdsins og rökkum þeirra. Óbeint fjallar greinin um deilurnar um bréfasafn skáldsins.
Hver á Laxness? Strangt til tekið er ekki hægt að spyrja svona séu menn að fjalla um bókmenntir skáldsins og ekki jörð í Flóanum eða fyrir austan. Bókmenntaverk hættir vitaskuld að vera eign höfundarins í vissum skilningi um leið og fólk les verkið og verður fyrir áhrifum af því, lætur hrífast með, eða skiptir kannski um skoðun í lífinu. Það á enginn þann prósess nema sá sem í hlut á. Hann er ekki hægt að kaupa, eða taka frá þeim sem les, frekar en frelsið sem þú tekur þér þegar þú lygnir aftur augunum og lætur þér renna í brjóst á hrútleiðinlegri bíómynd. Það er nefnilega óravegur frá bókinni, hinu efnislega verki á fjögur og tvö, og til þess sem verður til við lesturinn. Þess vegna er spurningin eins og hún er fram sett ekki áhugaverð. Þetta snýst nefnilega ekki um frumstæð lögmálin um framleiðslu og sölu, framboð og eftirspurn, eða eignarhald. Það var að minnsta kosti það sem skáldið reyndi að miðla okkur í uppgjörsverkinu Heimsljósi svo dæmi sé tekið. Það var ekki bara þúsund ára ríki nasismans séð í öfugum sjónauka. Það fjallar líka um annars konar þjóðskipulag sem svíkur þegna sína, alræði öreiganna.
Hús skáldsins og aðra dauðlega hluti geta menn keypt eins og hverja aðra vöru. Menn geta líka komið dauðlegum eignum hans fyrir á safni og selt inn, en frelsi okkar til að lesa og upplifa verkin getur enginn keypt eða verslað með. Það er galdur bókmenntanna. Þess vegna er það ákaflega takmarkandi sem bókmenntafræðingurinn segir með tilvísun til kaupa Davíðs Oddssonar á Gljúfrasteini, en hann segir: "Líta má á viðskiptin sem táknræna staðfestingu á eignarhaldi þjóðarinnar á skáldinu."
Það er miklu nær að skilgreina þessi kaup, og fíkn Hannesar í bréfin, sem lifandi framhald af tilraunum Péturs þríhross og Júels Júels til að kaupa sér skáld og ekki neitt venjulegt skáld heldur þjóðskáld. Í þessum skilningi tekur raunveruleikinn skáldsögunni fram. Þar sem sögunni sleppir hættir veröldin að vera saklaus upplifun og skynjun og ískaldur raunveruleiki valdsins tekur við stígvélaður upp í klof.
Það má í stuttu máli færa gild rök fyrir því að valdið hafi ætlað sér að "kaupa" skáldið, gera það að sínu, eða troða það niðrí svaðið með sama hrottaskap og reynt var að gera við Ljósvíkinginn sjálfan. Bréfabisnessinn er einn liður í þessum tilraunum. Hann skal niðrá hnén hvað sem það kostar. Því miður var það ekki þjóðin sem keypti Gljúfrastein og til allrar hamingju getur enginn keypt það skáld sem í stærð sinni skyggir á aðra menn. Ég spyr mig hins vegar Ögmundur hvar það fólk er sem skáldið tók upp í á lífsleið sinni og miðlaði af þekkingu sinni og visku? Hvernig stendur á að andans menn stíga ekki fram og krefjast þess að valdið haldi krumlum sínu fjarri minningu skáldsins? Halldór er ekki skáld valdsins, og getur ekki orðið, á með bækur hans verða lesnar og einmitt þess vegna vilja þeir reyna að forvalta minningu hans, eða sverta. Nú er kannski komið að því að menn hugsi til þess, ekki síst forystumenn háskólans, og velti fyrir sér því sem hann á sinni tíð sagði sjálfur, þegar hann var gerður að heiðursdoktor í Háskóla Íslands: Nefndu nafnið mitt þegar lítið liggur við.
Ólína

Fréttabréf