Kóngurinn, sprellarinn og ráðgjafinn

Nú kann vel að vera að ég sé eitthvað utan gátta í pólitíkinni þessa dagana, en erindið er sem sagt þetta: Er það rétt að Össur Skarphéðinsson sé óskoraður foringi stjónarandstöðunnar á þingi? Þetta heyrði ég í þættinum sunnudagskaffi á Rás 2 í síðastliðinn sunnudag. Stjórnandi þáttarins kallaði Össur "foringja stjórnarandstöðunnar" og Össur kallaði sjálfan sig "forystumann stjórnarandstöðunnar". Af einhverjum ástæðum kannast ég ekki við þetta stöðumat. Kannski byggist það á þingstyrk þeirra flokka sem standa utan ríkisstjórnar en mér er til efs að það sé grundvallað á stefnu þeirra og málflutningi. Mér sýnist nefnilega að meirihluti Samfylkingarinnar sé bærilega sáttur við núverandi ríkisstjórn og að þingmenn hennar séu fremur að leiðbeina stjórninni en andæfa henni. Og í þessu samhengi rifjast upp fyrir mér barnagælan um konunginn hann Davíð sem fór jafnan á fætur við fyrsta hanagal. Í fljótu bragði kem ég ekki auga á sprelligosann við hirð hins árrisula jöfurs, þótt ekki verði það af Guðna Ágústssyni skafið að hann á góða spretti af og til og hefur þá ávallt haft afar jákvæð áhrif á heldur dapra geðheilsu mína . Á hinn bóginn er ljóst að Össur Skarphéðinsson er nú um stundir í búningi hins milda ráðgjafa konungsins. Hlutverkið á illa við Össur og vonandi skiptir hann skjótt um búning enda þekki ég fáa öflugri og skemmtilegri andófsmenn en einmitt hann. Ekki veitir fámennri stjórnarandstöðunni af að fjölga í sínu liði og auðvitað eiga Össur og hans líkar vera þeim réttu megin línunnar. Um hægri partinn af Samfylkingunni nenni ég aftur á móti ekki að tala - hann má að meinalausu standa í þeirri meiningu að hann sé fullgildur aðili að fjórðu ríkisstjórn Davíðs Oddsonar - en reyndar án ráðherraembætta.
Þjóðólfur  

Fréttabréf