Fara í efni

Syndaaflausn í Róm?

Komdu sæll Ögmundur minn.
Mikið er ég farin að furða mig á þessum fréttum frá Kárahnjúkum. Uppi á íslenskum reginfjöllum virðast þeir vera að striplast um klæðalitlir þessir vesalings verkamenn sunnan úr álfum. Mér hlýnar hins vegar um hjartarætur að vita hve vel íslenskar konur hafa tekið á vanda þessara manna. Og eitthvað virðist verktakinn vera að átta sig, bví nú stendur til að senda 300 pör af ullarsokkum með hraði austur. En halda menn virkilega að þetta dugi í íslensku vetrarveðri? Ég spyr sjálfa mig hvort þetta sé grin. Ég get svosum sjálf svarað að bragði. Auðvitað er þetta ekkert grín, alla vega fyrir þá sem kuldinn nístir. En ábyrgð ríkisstjórnarinnar er mikil. Það er ekki að undra að formaður Framsóknarflokksins skuli vera kominn til Rómar. Þangað fóru menn fyrr á tíð til að fá syndaaflausn. Ég er ansi hrædd um að Halldór okkar Ásgrímsson þurfi að liggja lengi á hnjánum fyrir hönd Framsóknarflokksins áður en honum verður fyrirgerfið þetta óhappaverk við Kárahnjúka.
Með bestu kveðju og velfarnaðaróskum,
Ljósmóðir