Fara í efni

Te kaffi og gegnsósa skór með stáltá

Sæll Ögmundur.
Áhugaverð greinin um teboð Óðins Jónssonar, þrautreynds dagskrárgerðarsmanns hjá Rás 2, og umhugsunarverð eins og fleira á ljósvakanum þessa dagana. Gagnrýni og gagnrýnin hugsun virðist á undanhaldi og huggulegheitin á uppleið. Hann yljar varminn frá valdinu þótt ekki sé það beint bundið við hjartaræturnar. Annars er það fleira en teboð sem vekur undrun. Um leið og haustar austur á landi, gránar í rót og kólnar, fennir jafnvel við Kárahnjúka, og vist verkamannsins gerist daufleg og vond þá sendir fréttaritari Sjónvarpsins og Rásar 2 pistla af svæðinu í stríðum straumum. Fæstir eru um gegnsósa vinnuskó verkamanna með stáltá, eða hálfblauta búninga þeirra og illa þefjandi híbýlin. Fleiri eru um skínandi fínar gröfur, tæki og tól. Það stirnir á gula og svarta CAT drekana á hálendinu. – Og þessi risagrafa getur tekið 20 tonn í hverja skóflu, stynur fréttaritarinn í upphafinni fullnægju. Engin mynd, ekkert skot, af erlendum verkamönnum í skjóllitlum hlífðarfatnaði. Ekkert skot af rússneska lækningum, sem er alls enginn læknir, en sem virðist hafa verið við læknisstörf á hálendinu með þegjandi samþykki heilbrigðisyfirvalda. Ég segi virðist því varla hefur læknadeildin og landlæknir slakað á faglegum kröfum sínum gagnvart þessum eina Rússa svo mjög sem þær stofnanir halda í heiðri faglega yfirburði og metnað. Annars er mér oft hugsað til ræðu forseta lýðveldisins um strandhögg íslenskra peningamanna í Búlgaríu sem mig minnir hann héldi í upphafi árs. Þar dró hann upp síðrómantíska mynd af árangri Íslendinga í hörðum nýheimi alþjóðlegra viðskipta og hældi þeim á hvert reipi fyrir útsjónasemi og dug. Mér er stundum hugsað til þess hvort einhver munur sé á þeim Impregilo-mönnum á austfirska hálendinu og lyfjaframleiðslumönnunum íslenskum sem ferðast um á brimvörðum bílum austur í Evrópu. Erum við ekki að tala um tvær hliðar á sama gullpeningi? Þá dönsuðu fjölmiðlarnir flestir líka með – í huggulegheitum og tei.
Ólína