Uppgjöf Morgunblaðsins?

Sæll Ögmundur.
Ég fagna því sem þú segir um Morgunblaðið því ég er eins og þú þeirrar skoðunar að Morgunblaðið eigi ríkari þátt í að gera okkur að heimsborgurum en við viljum kannski viðurkenna sem vildum sjá þúsund blóm blómstra í fjölmiðlaheiminum. Hef verið þessarar skoðunar í tuttugu ár, en ég sé í þessum efnum nokkrar blikur á lofti. Mér fannst endurskipulagning í stjórnkerfi Morgunblaðisins mislukkuð. Skiptingin í þriggja manna pólitískt, eða flokkspólitískt teymi, og fréttastjórn hins vegar þykir mér hafa mistekist. Blaðið hefur að mínum dómi þrengst. Hvernig spyrðu? Með því að handvelja fulltrúa stjórnmálaflokkanna inná miðopnu blaðsins, með því að breyta aðsendum greinum og gera minna úr þeim og höfundunum og með sjálfri breytingunni að kljúfa ritstjórnunina í pólitík og fréttir. Ef morgunblaðsmenn sjá ekki hve einsleitur sá hópur er að verða sem skrifar í blaðið nú og er hinn opinberi vettvangur þess þá undirstrikar það skoðun mína. Annað sem ég hef verulegar áhyggjur af eru áhrifin sem Skjár 1 og Fréttablaðið hefur á fjölmiðlamarkaðnum. Báðir fjölmiðlarnir grafa hvor með sínum hætti undan fjölmiðli á borð við Morgunblaðið, eða þess vegna DV. Það er undarlegt að horfa upp á hvernig leiðtogar þessara blaða reyna af veikum mætti og takmörkuðu hugmyndaflugi að svara framsókn Fréttablaðsins og Skjás 1. Hannes H. og Ólafur Björn Kárason reyndu lengi vel að gera Fréttablaðið tortryggilegt með því ásamt forsætisráðherra að þvæla um eignarhaldið á blaðinu. Furðurlega takmörkuð aðferð og lítt intellígent sem engu skilaði öðru en að auka spennuna fyrir Fréttablaðinu, sem nýtti sér stöðuna til fullnustu og má með rökum halda því fram að Hannes, Ólafur og Davíð hafi átt drýgstan þátt í að halda Fréttablaðinu gangandi sem fullburða fjölmiðli þegar blaðið barðist fyrir lífi sínu frá degi til dags. Gáfumannasveit íhaldsins spurði aldrei réttu spurningarinnar sem fær fólk sjálfkrafa til að staldra við og hugsa um samhengi hlutanna en það er þessi einfalda spurning: Hvernig greiði ég fyrir Fréttablaðið mitt? Því miður datt morgunblaðsmönnunum heldur ekki í hug að spyrja og ekki spyr Blaðamannafélag Íslands sig: Getur verið að við getum haldið úti fjölmiðlum til að tryggja lýðræðislegar umræður og lýðræðislegt aðhald í landinu sem byggjast á auglýsingum? Feill Morgunblaðsins fyrir nokkrum misserum var að stíga ekki skrefið til fulls fram á við og verða sá frjálslyndi, borgaralegi gagnrýnandi miðill sem þörf var fyrir og er kannski enn. Í stað þess hörfaði blaðið aftur ofan í flokkspólitískar skotgrafir og ógnar nú sjálfu sér. Við lesendur eigum svo á hættu að börn okkar og barnabörn fái ekki notið þess þáttar Morgunblaðsins í framtíðinni sem gerði okkur að heimsborgurum. Það er ekki miður fyrir hvert og eitt okkar - það er miður fyrir okkur öll.
Ólína

Fréttabréf