Fara í efni

Box og rjúpa eru merki mitt, merki jarðvegsfræðinganna

Nú hafa þau stórtíðindi gerst að fulltrúi karlmennskunnar og Kópavogsbúa á Alþingi Íslendinga hefur flutt sitt annað þingmál eftir að hafa vermt þingbekkina allar götur frá árinu 1999. Eftir mikinn barning tókst ofangreindu karlmenni, Gunnari Birgissyni, að fá afléttu banni við hnefaleikum hér á landi og nú vill hann aflétta nýtilkomnu veiðibanni á rjúpu. Honum til halds og trausts eru 17 meðflutningsmenn, 14 karlmenni úr stjórnarflokkunum og þrjár sjálfstæðar konur.

                Nú veit ég ekki hvað Gunnari gengur til, hvort hann ætlar að rota rjúpurnar eða skjóta þær en það má raunar einu gilda þegar verndun stofnsins er annars vegar. Ég legg það hins vegar eindregið til að sá þröngsýni 17 manna hópur sem Gunnar hefur fengið til fylgilags við sig fái auðveldara verkefni við að glíma en að hitta rjúpur - nefnilega Gunnar sjálfan. Er þá að minnsta kosti veik von til þess að ekki komi meðflutningsmennirnir allir tómhentir til byggða.
Varði Straumfjörð