Fara í efni

Sjúkdómavæðing stjórnmálanna

 

Sæll Ögmundur.
Nokkrir núverandi og fyrrverandi þingmenn svokallaðra jafnaðarmanna hafa haldið á lofti nýrri framtíð i heilbrigðismálum landsmanna, bæði framtíð þeirra sem hafa ráð á henni og hinna sem fyrirsjáanlegt er að verða fyrir barðinu á nýfrjálshyggjunni. Lausnin felst í markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins segja þeir. Það er leiðinlegt að segja það en Össur Skarphéðinsson virðist á þessu sviði svo grunnhygginn að raunalegt er upp á að horfa. Smæð hans slík að mér er til efs að jafnaðarmannaleiðtogar hafi í seinni tíð sýnt annað eins í orði og ljóst að hinar siðfræðilegu gaddavírsgirðingar liggja við samfylkingarjörðina eða oní henni. Það er ekki nóg fyrir stjórnmálaleiðtoga að hlusta og enduróma gagnrýnislaust málflutning manna sem hafa efni á sjálfir að spila með svo mikið fé að þeim finnst ekkert tiltökumál þegar Hæstiréttir gefur þeim milljónatuga afslátt af eigin undirskriftum. Það er ekki nóg, gagnrýnislaust, að kasta fram hugmyndum hagfræðinga, sem eru svo uppteknir af kenningunni að fólk rúmast hvergi í módelunum og það er ekki nóg að hlusta á ráðgjafa sem eru hugsanlega á mála hjá þeim sem mestan hafa hag af breytingum í markaðsvæðingarátt í heilbrigðiskerfinu. Það er stundum sagt að sjúkdómavæðing sé einn mesti vandi heilbrigðiskerfanna í Vestur-Evrópu. Össur formaður hefur lítið talað um þann vanda, en það gerði læknir að nafni Ágúst Jóhann Sigurðsson í blöðunum á dögunum. Það var merkilegt innlegg fannst mér. Jafn merkilegt þótti mér þegar ég sá framlag eins alþingismanns, forystumanns og eins af hugsuðum Samfylkingarinnar. Sá er að því er virðist genginn sjúkdómsvæðingaröflum á hönd. Hann stjórnar nú útvarpsþætti um lungnaþembu sem studdur er dyggilega af lyfjafyrirtæki sem selur lungnaþembusjúkum lyf. Maðurinn er Einar Karl Haraldsson sem hefur undanfarið setið á þingi fyrir kjósendur Samfylkingar. Ætli þetta sé markaðsvæðingin sem Össur formaður var að tala um? Eða ætli hann láti kanna þessa hlið heilbrigðismálanna næsta árið? Af hverju er ekki talað um þetta rugl tæpitungulaust Ögmundur? Ég og nokkrar vinkonur mínar við höfum verið að ræða þetta síðust daga. Okkur finnst lungnaþembuþáttur Einars og Astra dæmi um sjúkdómavæðingu stjórnmálanna og við vitum ekki til þess að Astra Zeneca framleiði lyf við þeim kvilla.

Ólína