Fara í efni

Um einhleypa öryrkja

Sæll Ögmundur!
Mig langar að spyrja hvort vænta megi frumvarps frá Vinstri grænum eða stjórnarandstöðunni um málefni einhleypra öryrkja og þeirra öryrkja sem verst standa. Þrátt fyrir tölfræðiblekkingar ríkissstjórnar sem vel er hægt að hrekja, um kaupmáttaraukingu lífeyrisbóta almannatrygginga þá er eins og allir trúi þessu bulli Davíðs og Halldórs. Jafnvel stjórnarandstaðan. Ég hef farið í gegnum tölur ríkisstjórnar um þessa meintu kaupmáttaraukningu og sé að hún er byggð á rangri forsendu. M.ö.o. talnaleikur til að blekkja. Ég hef í höndunum dæmi um kaupmáttarskerðingu örorkubóta einstaklings sé miðað við og reiknað út frá tölum frá Hagstofunni. Jafnvel þó frumvörp séu felld þá hafa þau táknrænt gildi og mér virðist sem stjórnarandstaðan vanmeti það gildi. Það er nefnilega svo að fólk kynnir sér slíkt og metur það. En þetta eru pælingar sem mér finnst vert að verði skoðaðar.
Kveðja,
Hafþór Baldvinsson

 Sæll Hafþór.
Ég er sammála þér að það hefur gildi í sjálfu sér að tala fyrir þingmáli jafnvel þótt það verði fellt. Dropinn holar steininn. Það sem mér finnst einna brýnast varðandi þan hóp sem þú nefnir er að auka stuðning til dæmis varðandi húsnæði. Vissulega þarf að hækka lífeyrisbæturnar og þar með bæta öryggisnetið. En ekki vill maður að fólk sé í öryggisneti alla ævina og komist aldrei upp úr því. Það þarf að gera fólki kleift að búa í góðu húsnæði og hafa fjárhagslegt bolmagn til að geta veitt sér eitthvað í lífinu. Eins og sakir standa miðast allt við að skrimta. Þessu þarf að breyta. Brýning þín er góð, bæði gagnvart okkur á þingi og í samtökum launafólks. Í BSRB erum við að vinna að skattatillögum með þessa þætti í huga.
Með bestu kveðju,
Ögmundur