Fara í efni

Brottfararkaup

Þrándi hefur löngum skilist að í orðinu þingfararkaup fælist að þingmenn fengju kaup fyrir að fara á þing og vera þar að ljöggjafarstörfum. Nú er aftur á móti komið upp nýtt fyrirbrigði sem vert er að gefa gaum að. Forsætisnefnd Alþingis hefur sem sé lagt fram frumvarp til laga um kaup ráðherra þegar þeir eru farnir af þingi og teknir að sinna öðrum áhugamálum en að stjórna landinu. Forseti þingsins hefur sagt að ein helsta röksemdin fyrir frumvarpinu sé sú að gera þurfi lífið eftir ráðherradóm bærilegra fyrir brottfarna. Helst er á honum að skilja að lokka þurfi ráðherra á sextugsaldri, einkum forsætisráðherra, sem setið hefur tvö kjörtímabil eða lengur til að hætta. Það verði best gert með því að borga sem allra myndarlegast brottfararkaup þannig að það borgi sig alls ekki fyrir slíkan mann að gerast óbreyttur þingmaður aftur og þiggja þingfararkaup, hvað þá að fara í aðra vinnu. Sumir eru svo ókurteisir að kalla frumvarpið skraddarasuamaðan starfslokasamning fyrir sjálfan forsætisráðherrann, sem fyrir hreina tilviljun hefur setið á sínum stólum lengur en tvö kjörtímabil og er auk þess á sextugsaldri.
Þrándur tekur heilshugar undir með forseta Alþingis. Gera á forsætisráðherranum sem allra auðveldast fyrir í því að hætta, því fyrr sem hægt er að koma því í kring því betra. Þjóðin hefur ekki nema gott af því að lifa nokkra góða mánuði án Davíðs. Þrándi sýnist beinlínis ósanngjarnt að ráðherrann fórni sér mikið lengur í þau mörgu vanþakklátu hlutverk sem hann hefur orðið að taka að sér undanfarin ár. Hann hefur af dæmafárri fórnfýsi staðið fyrir margskonar umbótum, einkum fyrir fólk sem er bæði vanþakklátt og skilur alls ekki hvað því er fyrir bestu. Þannig hefur ríkisstjórn hans margsinnis sýnt fram mikilvægi þess að myndarlegur hópur lifi af afar litlu. Sjálfur hefur hann réttilega bent á hve auðvelt sé að komast af, með því einu að fara þangað sem matur og hlutir fást gefins. Ríkisstjórnin hefur ekki talið eftir sér að standa í flóknu málastappi fyrir dómstólum við ófyrirleitinn hóp sem efast um ágæti þess að lifa af 70 – 80.000 á mánuði. Málaferlin ein og sér hafa að vísu kostað sitt, en það er ekki forsætisráðherranum að kenna heldur þeim dónum sem hafa verið með múður. Sem betur fer hefur hann haft greiðan aðgang að hræódýrum "sérfærðingum” sem semja fyrir hann frumvörp, svo komast megi hjá þeirri svívirðu sem hæstiréttur hefur hvað eftir annað dæmt stjórn hans til að borga. Dagsverk hinna snjöllu lögmanna og spilafélaga ráðherrans kostar aðeins 70 – 80.000 krónur. Þeir hafa með öðrum orðum mjög svipað kaup og öryrkjar, að sönnu á dag en ekki mánuði og árstekjur á 12 dögum en ekki ári, sem er auðvitað bitamunur en ekki fjár.
Allir vita að forsætisráðherrann hefur orðið að fást við mörg verk sem eru honum þvert um geð. Hann neyddist til að lækka skatta á fyrirtæki og hátekjufólk og hann var þvingaður til að selja ríkisbanka á spottprís. Vissulega er það huggun harmi gegn að honum hefur auðnast að auka skattbyrði þeirra sem minnst hafa og sjúkrakostnað hinna veiku sem aldrei geta neitað sér ekki um að leita heilsubótar, svo fátt eitt af góðum verkum sé tíundað.
Nei, Þrándur tekur ekki undir með þeim sem nú hneykslast á brottfararkaupi forsætisráðherrans. Þvert á móti finnst honum að svo ágætum manni megi borga miklu hærra kaup fyrir að snúa sér að öðru en pólitík og sjálfsagt að næsti maður taki við sem allra fyrst, en – obbo bobb. Bíðum nú aðeins við! Heitir hann Halldór Ásgrímsson? Hvert þó í .....
Þrándur.