Fara í efni

Hvað merkir hjáseta?

Sæll Ögmundur. Ég er skoðanabróðir þinn í flestu og hef lengi verið glaður að hafa mann eins og þig á þingi að berjast fyrir okkur öll. Ég er með spurningu varðandi þetta blessaða eftirlaunafrumvarp. Hver er þýðingin á bakvið það að mótmæla opinberlega frumvarpi en sitja hjá í atkvæðagreiðslu á sama tíma ? Maður hefði haldið að þeir sem mótmæla myndu segja nei. Takk fyrir.
Sveinn

Þakka þér kærlega hlý orð Sveinn. Eftir fyrstu umræðu um þingmál er venjan að greiða atkvæði með því að málinu verði vísað áfram til nefndar og síðan annarrar umræðu, jafnvel þótt maður sé því andvígur. Þar með er fallist á að það fái efnislega og málefnalega meðferð. Í stöku tilvikum sýnir maður andúð sína með því að sitja hjá og þess eru dæmi að maður greiðir hreinlega atkvæði gegn því að þingmáli verði vísað áfram. Í þessu tilviki er það einmitt helsta gagnrýni margra að þetta tiltekna mál, sem varðar lífeyrisréttindi þingmanna, skuli ekki fá nægilega efnislega umræðu. Ef ég man rétt sat ég hjá þegar málinu var vísað til annarrar umræðu en greiddi atkvæði gegn því að því yrði vísað til þriðju umræðu enda þá ljóst að keyra átti málið áfram með offorsi. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð.
Með kveðju,
Ögmundur