Fara í efni

Samlíkingar Bjarna

Sæll Ögmundur og takk fyrir fremur málefnalega framkomu í stjórnmálum. Ertu ekki sammála mér í því að eftirlaunafrumvarpið sé efnislega skylt tveim öðrum "hasarmálum" þ.e. Búnaðarb.kaupþings látunum og öryrkjafrumvarpinu?: A) Búnaðarb.kaupþ.menn voru að tryggja sér ofurlaun óháð áhættu á markaði, lífeyrir ráðherra virðist eiga að vera tryggður óðháð ávöxtun lífeyrissjóðs eins og venjulegt fólk þarf að búa við. B)Ef marka má orð stjórnarþingmanna þá kemur milljarðurinn fyrst og svo má athuga hvort hægt sé að standa við grunnréttindi öryrkja, en í "eftirlaunafrumvarpinu" átti að tryggja ráðherrum aukin eftirlaun áður en nokkur virtist vita hvað slíkt kostaði í heild sinni. Einn sem er að missa alla trú á heiðarleika og starfhæfni pólitíkusa.
Bjarni G. Bjarnason

Sæll Bjarni og þakka þér bréfið. Í grundvallaratrðum er ég sammála þinni sýn á þessi mál. Varðandi samkomulagið við Öryrkjabandalag Íslands frá í mars sl., þá segist ríkisstjórnin reyndar ætla að standa við greiðslur til öryrkja eins og þær þegar hafa verið ákveðnar auk nýrra ákvæða sem kosta margfrægan milljarð. Eftir stendur að ekki verða efnd öll ákvæði samningsins sem hefðu kostað 500 milljónir til viðbótar. En samlíking þín stendur að því leyti varðandi lífeyrisfrumvarpið, að þar er fyrst ákveðið hvað skal gera, það fest í lög og síðan er reiknað. Samkvæmt öryrkjaformúlunni mættu ráðherrar og þingmenn hins vegar búast við að fá ekki þann lífeyri sem nú hafa verið gefin fyrirheit um, þegar að töku lífeyris kemur. Það mætti segja mér að einhverjir eldri borgarar, sem áður sátu í þingsal, mættu þá á þingpalla – nokkuð þungir á brún! 
Kveðja,Ögmundur