Endurmenntun í passíusálmunum

Allir muna eftir því þegar Davíð Oddsson forsætisráðherra sá sig knúinn til þess á haustmánuðum að lesa upp úr passíusálmunum í fréttatímum RÚV til þess að slá á peningafíkn gróðapunganna í bankakerfinu- en græðgin er svo sannarlega "merki nýrra tíma", eins og segir í slagorði  hins nýja KGB-banka. Og nú hefur forsætisráðherra bæst öflugur liðsauki sem er Endurmenntun Háskóla Íslands. Á vorönn býður stofnunin upp á 30 kennslustunda námskeið í sálmum Hallgríms undir handleiðslu hins frábæra kennara, Jóns Böðvarssonar cand. mag. Er vonandi að sem flestir njóti leiðsagnar hans um þennan hæsta tind andlegs kveðskapar á Íslandi. Ekki veitir af því mjög hefur dregið úr áhrifamætti þessara bráðum 350 ára gömlu sálma í seinni tíð. Og mikið mundi það nú létta byrðarnar á baki forsætisráðherrans ef ýmsir helstu viðskiptajöfrar landsins tækju þessu tilboði Háskólans. Námskeiðið kostar að vísu 16.100 krónur pr. mann en gæti - ef vel til tekst - stórum bætt geðslag ráðherrans og sparað honum ýmsar lagasetningar, m.a. um fjölmiðlaeign og hringamyndanir. Íslands athafnaskáld! Nú ríður á að horfa ekki í aurinn heldur þvert á móti að sýna viðleitni og fjárfesta til framtíðar. Það ætla ég að gera.
Jón Bisness

Fréttabréf