Fara í efni

“Segðu mér hverja þú átt að vinum og ég skal segja þér hver þú ert.”

Í ávarp forseta Íslands við áramót lagði hann mikla áherslu á hlutverk Íslendinga í breyttum heimi. Á sviði viðskipta væri landslag breytt og tækifæri mikil. Fram kom í ávarpinu að íslenskir athafnamenn eigi kost á stjarnfræðilegum gróða ef rétt væri á málum haldið. Mikilvægt væri að draga ekki úr frelsi til athafna með óþarfa lagasetningu sem hefti starfsemi.
Þeir viðskiptajöfrar íslenskir sem mestum árangri hafa náð hafa sérhæft sig í samskiptum við einkavæðingarnefndir og stjórnvöld í löndum kommunistaríkjanna gömlu. Í þeim samskiptum hefur forsetinn reynst betri en ekki neitt. Hann hefur látið sig miklu skipta útrás Pharmaco til Búlgaríu, lán Alþjóðabankans til Bravoverksmiðjunnar í Pétursborg sem var undanfari sölu Samson á Bravo til Heineken í Hollandi. Fróðlegt er að fylgjast með þeim þreifingum sem nú eru varðandi sölu á Landsíma Búlgaríu þar sem íslenskir athafnamenn með Símanum íslenska eru í félagi við bandaríska fjárfesta og sendiráð Bandaríkjanna í Búkarest að þröngva fram sölu .
Forseti vor er vel kynntur meðal þjóða heims. Hann hefur lagt sig fram bæði sem þingmaður og síðan sem forseti að halda góðu sambandi við útlönd. Og á hann að vinum marga meðal stórmenna og athafnamanna heimsins. Þar má nefna Gandhi fjölskylduna á Indlandi. Í seinni tíð virðist Ólafur Ragnar horfa mikið til manna sem hafa mikinn auð undir höndum og þá ekki síst til hinna nýríku sem hagnast hafa á einkavæðingu í Austurvegi.  Kunnur er mikill vinskapur hans við Abromovich landstjóra í Rússlandi, eiganda Chelsea fótboltaliðsins.
Í ljósi þess hvað mikið af þeim stórfjárfestingum sem gerðar hafa verið af Íslendingum á síðustu misserum eru af pólitískum toga má spyrja sig hvort og að hvað marki þjóðhöfðinginn eigi að koma að þeim. Ljóst er að á sama hátt og hann getur liðkað fyrir getur hann skaðað þjóð sína.
Gamalt spakmæli segir: “Segðu mér hverja þú átt að vinum og ég skal segja þér hver þú ert.”
Bjarni.