Fara í efni

Fögnuður Davíðs

Þá vitum við að heimastjórn á eitt hundrað ára afmæli um þessar mundir og við vitum líka að Hannes Hafstein er helsta fyrirmynd Davíðs Oddssonar.  Svo mikil fyrirmynd að halda varð sérstaka hátíðadagskrá til þess ða Davíð gæti flutt eina ræðu.  Líka gat Davíð lagt blómsveig að leiði Hannesar og í raun leit út fyrir að Hannes Hafstein hafi verið fullgildur félagi Sjálfstæðisflokksins.  Heimstjórnarafmælið var ein samfelld samkoma Sjálfstæðisflokksins og einkum og sér í lagi Davíðs Oddssonar.  Það meira að segja gleymdist að láta Ólaf Ragnar vita að til stæði að halda ríkisráðsfund, enda ætlaði hann hvort sem var til útlanda í sínu fríi og það hefði verið ókurteisi að ætlast til þess að hann frestaði því eða gerði einhverjar ráðstafanir.
Hvernig fer fyrir landinu og þjóðinni þegar Davíð afhendir Halldóri lyklana að stjórnarráðinu?  Þegar maðurinn sem deilir og drottnar sem einvaldur lands og lýðs hverfur af sviðinu. Þetta með forsetann er auðvitað tittlingaskítur enda hefur Ólafur Ragnar að því best er vitað aldrei verið í Sjálfstæðisflokknum og er því alger utangarðsmaður.  Enda er það algengt að forseti mæti ekki á ríkisráðsfundi, svo algengt að Björn dómsmála segir á vefsíðu sinni að það hafi síðast gerst fyrir fjörutíu árum, svo allir sjá auðvitað að þetta er dagsdaglegur viðburður.
En það er varla gerandi grín að þessu og þó, barnalegur hrokinn og sandkassatilburðirnir er ekki til annars en að hlægja að en samt.  Heimastjórnin var auðvitað merkur áfangi í sögu sjálfstæðis þjóðarinnar en á engan hátt merkur áfangi í sögu Sjálfstæðisflokksins, sem þá var ekki einu sinni til.  Að snúa þessum atburði til dýrðar þeim flokki og barnalegum forstæisráðherra hans er eins og þegar ákveðinn höfðingi fer með faðirvorið og slær taktinn með hófnum.  Meira að segja  Halldór fékk ekki að koma nærri, nema hann hafi verið erlendis að styrkja sjálfsmynd staðfastra þjóða, hvað þá garmurinn Össur svo ekki sé minnst á aðra jaðaraumyngja.
Og í þætti um þennan atburð á bláskjá var annar Hannes tilkvaddur að vitna um þennan merka atburð í sögu Sjálfstæðisflokksins og um glæsileik nafna síns.  Fórst honum það auðvitað vel úr hendi svo sem margt annað og vantaði þá aðeins lögfræðing í ramma til þess að verkið yrði fullkomnað.
Frá barnæsku hefur maður litið á Hannes Hafstein sem mikið skáld og glæsilegan forystumann.  Með þessum leikskólaaðferðum var skugga varpað á þá mynd.  Ég vona samt að Hannes (Hafstein á ég við) standi þetta hret af sér en það sama verður varla sagt um þá sem mögnuðu upp gerningaveðrið.
grj