Fara í efni

Sniðugt hjá Íslendingum

Bankarnir birta uppgjör sín fyrir síðasta ár um þessar mundir og kemur í ljós að það er alls ekki svo slæmur bisniss að reka banka nú á dögum. Þetta kemur auðvitað ekki á óvart, enda segir kostnaðarvitund almúgans að bankar taki vel fyrir hverja þá þjónustu sem þeir veita. Að sönnu staðhæfir Verslunarráðið að þeir taki lægri þjónustugjöld en bankar í grannlöndunum, en svo ótrúlega sem það kann að hljóma eru Neytendasamtökin á allt öðru máli. Hagnaðarvitund eigendanna sýnist í góðu lagi á meðan kostnaðarvitund viðskiptavinanna dugir ekki til að þeir flytji viðskipti sín þangað sem þeir yrðu krafðir um lægri gjöld. ,,Tilviljanir” viðskiptalífsins eru hagfelldari bönkunum en viðskiptavinum þeirra – einhverra hluta vegna gildir einu hvaða banka skipt er við, gjaldtakan er alls staðar svipuð. Viðskiptavinirnir eiga því ekki annan kost en að bíta á jaxlinn á meðan eigendurnir bíta í hverja alsnæktakökuna annarri girnilegri.
Landsbankinn hagnaðist um 3,5 milljarða á sl. ári en eignaðist um leið 170 milljarða sem ekki teljast til hagnaðarins. Með þessu auka hluthafarnir eignir sínar svo um munar án þess að þurfa hafa áhyggjur af sköttum. Viðskiptavinirnir greiða aftur á móti allan rekstrakostnað bankans (þar með talin laun bankastjóranna uppá 4 – 6 milljónir á mánuði), myndarlegt framlag á afskriftareikning fyrir utan að mynda hagnaðinn. Eins og gefur að skilja hefur ríkisstjórninn ákvðið að fella niður eignaskatta – annað hvort væri nú að menn gætu átt sínar eignir í friði.
Þrándur hefur áður gert mismuninn á því að hagnast og eignast að umtalsefni. Við nánari athugun virðist gæta lítilsháttar misræmis á þessu sviði sem kemur fram í þessu: Ef harðduglegur launamaður vinnur sér inn nokkrar aukamilljónir og kaupir fyrir það eign, til dæmis íbúð í viðbót við þá sem hann á fyrir, eru tekjurnar sem notaðar eru til að auka eignirnar skattlagðar um tæp 40%. Ef hann segði skattinum að hann hefði haft 3 milljónir í tekjur en hefði aukið eignir sínar um aðrar þrjár myndi skatturinn strax spyrja: Hvar fékkstu þessar þrjár? Þá duga engin undanbrögð og launamaðurinn neyðist til að játa að hann hafi unnið fyrir þeim og borgar skatt í samræmi við það.
Allt öðru máli gegnir um banka. Eftir framsetningu þeirra á reikningum sínum verður ekki betur séð en ekkert samband sé á milli tekna annars vegar og eignaaukningar hins vegar. Banki getur sem best bætt við sig milljörðum á milljarða ofan í eignum án þess að sýna fram á að hann hafi haft tekjur til að eignast þær. Spakvitrir bókhaldarar hafa sagt Þrándi að hagnaðurinn af eignaaukningunni komi ekki fram fyrr en eignirnar séu seldar – ef þær verða þá seldar með hagnaði. Spaugstofan mundi segja að þetta væri siniðugt hjá Íslendingum. Og ekki verður því neitað með rökum, vegna þess að á þennan einfalda hátt geta bankar – og væntanlega önnur fyrirtæki líka – eignast allt sem hugur hluthafanna girnist, og jafnvel miklu meira, án þess nokkru sinni að borga skatt af eignaaukningunni. Það er svo annað mál hvort þetta er að sama skapi sanngjarnt gagnvart vinnandi almúga – en er einhver ástæða til að velta svoleiðis tittlingaskít fyrir sér, eða væri kannski ástæða til að skattleggja eignaaukningu banka eins og tekjur launafólks?
Þrándur.