Fara í efni

Hvers vegna kærir enginn?

Sæll, Ögmundur.
Ég er alveg sammála þeim sem vilja allar bjórauglýsingar burtu úr sjónvarpi og blöðum. Hitt gegnir furðu að enginn stjórnmálamaður sem nú er á þingi skuli hafa beitt sér gegn því að eimingartæki og efni tíl vín- og ölgerðar skuli vera til sölu í ýmsum verzlunum. Bannað er að brugga samkvæmt lögum, en ekki að selja tæki og efni sem til þarf. Ég man þá tíð að Svavar Gestsson, sem eitt sinn var þingmaður og ráðherra Alþýðubandalagsins, gaf lesendum Þjóðviljans uppskift að áfengu öli eða víni. Þetta var áður en bjórsala var leyfð á Íslandi að nýju.
Hvers vegna kærir enginn? Hafa þingmenn VG aldrei haft orð á þessu? Blessaður minnstu á þetta á þinginu. Þú ert sá þingmaður sem ég treysti bezt og varst á móti kjarabótum / mútum til formanna stjórarandstöðuflokkanna. Virðingarfyllst,
Sigurður Þór Bjarnason

Ekki kannast ég við þetta með Svavar og ölið en varðandi áfengisauglýsingarnar þá finnst mér í rauninni ekki eiga að þurfa að kæra. Þetta er augljóst lögbrot og því ber þar til bærum yfirvöldum að grípa í taumana. Ekki er ég sammála  orðlagi í niðurlagi bréfsins um margfrægt eftirlaunafrumvarp.
Kveðja,Ögmundur