Fara í efni

A license to kill

Sæll Ögmundur.
Maður trúir varla sínum eigin augum og eyrum þegar maður les frásagnir frá Írak þessa dagana. Ég var nokkuð sáttur við málflutning Hallgríms Thorsteinsson fjölmiðlamanns sem var með þér í Silfri Egils um helgina. Mjög áhrifarík var lýsing hans á atburðarásinni í Írak, sérstaklega því sem gerðist eftir að fjórir bandarískir hermenn voru myrtir á villimannlegan hátt. Eins og allir vita var svarað meðgrimmilegum hefndaraðgerðum þar sem að minnsta kosti 700 Írakar lágu í valnum. Fram kom hjá Hallgrími að í umsátri Bandaríkjahers hafi kúrdísk hersveit tekið þátt. Hann sagðist hafa heyrt viðtal við föður lítillar stúlku sem hafði verið myrt í "átökunum"; hún hafði verið skotin í höfuðið. Faðirinn sagðist nú myndu halda til Kúrdistan, að hefna harma sinna. Síðan yrði farið til Bandaríkjanna og óbreyttir borgarar þar ráðnir af dögum. Svona talar maður viti sínu fjær af harmi og  hatri!
Þetta er hins vegar lýsandi um hvernig eitt leiðir af öðru og úr verður vítahringur. Ástæðan fyrir því að ég skrifa þessar línur er þó lestur Moggans í dag. Á forsíðu kemur fram að Bandaríkjamenn hafi aflétt umsátri um borgina Fallujah en þar reis morðaldan hæst. Fram kemur að þeir Íraka,r sem afhendi Bandaríkjaher vopn sín "verði veitt sakaruppgjöf"! En hvað með hina afkastamiklu morðingja hernámsliðisins? Verður þeim veitt sakaruppgjöf – eða er kannski engin þörf á slíku gagnvart mönnum, sem hafa leyfi til að drepa – a license to kill?
Með kveðju,
Hafsteinn Orrason