Þekkir spilakassa af eigin reynslu
Sæll Ögmundur.
Heyrðu, mér datt í hug að senda þér smá tölvupóst vegna einarðs
stuðnings þíns við umræðuna um spilafíkn sem hefur verið ansi mikil
hér á landi að undanförnu.
Ég er algjörlega sammála þínum málflutningi. Ég er sammála því að
spilakassar eigi að fara út úr sjoppum landsins. Mér finnst að
þessir kassar eigi að fara inn í einhverja ákveðna sali. Þar sem
aðgengi væri hert all verulega.
Mér finnst allt of lítið eftirlit vera með þessum kössum í sjoppum
landsins. Það eru ekki allar sjoppur með sérstaka öryggishnappa til
að ýta á ef einhver undir aldurs mörkum er að spila. Það þarf að
líta til þess.
Mér finnst að það sé komið að því að þið keyrið frumvarp
í gegnum þingið. Það eru tugir ef ekki hundruð einstaklinga hér á
landi sem hafa misst aleiguna í þessum kössum. Mjög margar
fjölskyldur eru í sárum vegna hörmunga spilafíknarinnar.
Ég er 25 ára í dag. Ég er ekki saklaus af því að hafa ekki snert
þessa kassa. Ég byrjaði að setja klínk í slíka kassa þegar ég var
11-12 ára gamall. Þá voru það þessir gömlu tíkalla kassar. Síðan
þróaðist þetta út í það að ég var farin að setja fimmhundruð krónur
í þetta og svo loks þúsund kalla.
Ég tek það fram að ég hef aldrei tekið lán eða fjármagnað mína
spilamensku með slíku. Ég hef aldrei lent í fjárhagskrökkum út af
þessu.
En þegar ég var yngri þá var maður nú oftar en ekki að stela af
fólki í kringum sig, maður var að taka 100 kall af pabba og 200
kall af mömmu og svo þróaðist þetta út í það að maður stal af
ættingjum.
Ég vil taka það skýrt fram okkar á milli að mín mál hafa aldrei
ratað til lögreglu. Málin voru nú að mestu útrædd á milli mín og
foreldra minna. Ég hef aldrei lent á sakaskrá eða neitt
slíkt.
En það var nú komið þannig fyrir mér í lokin að ég var farin að
hugleiða það að taka líf mitt út af spilafíkninni. Kassarnir voru
farnir að ráða lífi mínu. Ég hætti að stunda skólann og svo fór í
lokin að ég náði ekki öllum prófum í lok grunnskólans. Reyndar ekki
bara út af spilafíkn heldur út af öðrum málum einnig.
Heyrðu mig langaði bara að senda þér þetta bréf og hvetja þig áfram
til dáða. Reyndu að koma frumvarpi í gegnum þingið sem bannar
spilakassa í sjoppum. Það er ekki seinna vænna. Ég sendi þér nafn
mitt með bréfinu en bið þig að hafa það nafnaust á síðunni.
Með kveðju,
Rúmlega tvítugur með reynslu af spilakössum.
Ég þakka þér kæsrelga fyrir þetta bréf, sem segir mikla
sögu.
Kveðja,Ögmundur