Er lifandi hvalur betri en dauður?

Ágæti þingmaður. Þar sem þú ert þingmaður vinstri GRÆNNA langar mig til að spyrja þig tveggja spurninga: Hver er afstaða þíns þingflokks til núverandi vísindaveiða á hvölum? Hver er þín skoðun á hvalveiðum, almennt? Með fyrirfram þökk fyrir svar.
Virðingarfyllst,
Helgi V. Tryggvason

Komdu sæll og þakka þér fyrir bréfið. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hefur ekki lagst afdráttarlaust gegn hvalveiðum þótt einstakir þingmenn hafi gert það. Flokkurinn leggur áherslu á að einvörðungu yrðu stundaðar sjálfbærar veiðar og þá því aðeins að fram kæmu sannfærandi rök fyrir því að veiðarnar þjónuðu  þjóðarhag. 

Mín afstaða til hvalveiða ræðst af tvennu, annars vegar áherslu á að einvörðungu verði stundaðar sjálfbærar veiðar og hins vegar að á hverjum tíma sé málið vegið og metið í ljósi heildarhagsmuna þjóðarinnar. Í því samhengi þarf að íhuga hvort verið er að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með hvalveiðum og má þar vísa til hvalaskoðunar sem er orðin myndarlegur atvinnuvegur og áhrifa sem hvalveiðar hafa á ímynd lands og þjóðar. Sú mynd skiptir máli fyrir okkur sem ferðamannaland og getur skipt sköpum fyrir útflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar. Ég hef ekki enn sem komið er sannfærst um að réttlætanlegt sé að stunda hvalveiðar af þessum ástæðum. Rökin gegn hvalveiðum hafa vegið þyngra í mínum huga. Flennifyrirsögn í dagblaði um helgina höfðaði til mín. Þar var spurt hvort gæti verið að lifandi hvalur væri betri en dauður.

Einsog þú sérð af þessu svari þá höfum við sem þingflokkur ekki beitt okkur af krafti varðandi þær veiðar sem nú eru stundaðar, fremur verið með umræðu á almennum gagnrýnum nótum. Þessi mál eru hins vegar mjög til umræðu í okkar röðum og væri fróðlegt að heyra þinn hug til þessara mála.
Kveðja,
Ögmundur 

Fréttabréf