Fara í efni

Hann Ólafur er líka okkar maður!

Sæll Ögmundur.
Ég þakka þér fyrir stórgóða grein um forsetaembættið en það er þó að mínum dómi stór ljóður á annars ágætu ráði þínu þegar þú ferð að tala um kónga- og auðmannadekrið á Bessastöðum. Dettur mér helst í hug að þú sért þarna að vísa m.a. til vinskapar forsetans við Abramovits hinn rússneska, Björgólfsfeðga, skíðatúranna til Aspen og þannig mætti áfram telja. En hvað hefur þú við þetta að athuga, ef ég er að geta mér rétt til? Tökum Abramovits fyrst. Hann er þekktur fyrir góðgerðastarf í sínu heimalandi og hann hefur einnig verið að létta lund alþýðu Lundúnaborgar með öflugu uppbyggingarstarfi hjá knattspyrnuklúbbnum Chelsea. Og hvað hefur Björgólfur Thor verið að gera í Búlgaríu, þangað sem forsetinn okkar fór með þeim Björgólfsfeðgum í viðskiptaleiðangur og útsýnistúr? Jú, Björgólfur Thor hefur verið að skapa atvinnu fyrir búlgarska alþýðu og framleiða ódýr lyf, m.a. ofan í fórnarlömb hins alræmda kommúnisma sem Guð hefur blessunarlega losað okkur við – amk. að mestu. Þá er Björgólfur búinn að kaupa búlgarska landssímann og hyggst koma á alsjálfvirku kerfi í landinu á einu ári! Og ef það er ekki góðverk þá veit ég ekki hvaða gildismat er í gangi. Hálf búlgarska þjóðin hefur nefnilega í áratugi verið meira og minna frá vinnu vegna eymsla í griplimum sem stafa af því að vera sífellt að snúa bévítans sveifinni á steinaldar-símtólum kommúnismans til að ná sambandi við miðstöð, eins og það kallaðist í denn. Og þá að skíðaíþróttinni og Aspenferðunum: Er það ekki bara til fyrirmyndar að forsetinn stundi líkamsrækt og er sú staðreynd í rauninni ekki fordæmisskapandi fyrir Íslendinga? Eða hvað mundi sparast mikið í heilbrigðiskerfinu ef landsmenn tækju forsetann sér til fyrirmyndar og færu þó ekki væri nema 3-4 sinnum á ári til Aspen? Ég gæti trúað því að það mætti leggja niður megnið af því bákni öllu, nema ef væri gamla góða Hvítabandið við Skólavörðuholt sem mætti nota undir tilfallandi íþróttameiðsl og botnlangaköst.

Já, Ólafur Ragnar Grímsson hefur verið gagnrýndur fyrir að flengjast heimsálfa á milli í einkaþotum stöndugra manna og ég hygg að þar liggi einmitt hundurinn grafinn í svokölluðu “auðmannadekri” sem þú, að mínu viti, ýjar heldur óvarlega að. En minna fer fyrir fréttum af því að forsetinn er okkar allra og vil ég segja þér litla sögu til dæmis þar um. Þannig var að sumarið 2003 var ég að fara í útilegu með mína vísitölufjölskyldu og var ferðinni heitið til Baulárvallavatns á Snæfellsnesi en þangað fer ég á hverju sumri í veiðiskap til búdrýginda. Ég hringdi í forsetann og bauð honum með. Ekki stóð á svari, Ólafur vildi kynnast mér og mínu fólki og var ég þó ekki á neinni einkaþotu. Nei, nei, öðru nær, ég hristist um landið á gamalli bíldruslu sem hélt hvorki rykmekki, vatni né vindi. Og forsetinn, hvernig virkaði hann á familíuna? Hann var alþýðlegur, góðgjarn, virtist ósköp venjulegur maður og gerði sér að góðu allar veitingar sem við höfðum fram að færa í mat og gistingu. Sérstaklega kom mér á óvart að hann skyldi ekki kvarta undan hvíta, botnlausa tjaldinu sem pabbi minn heitinn keypti í Ellingsen fyrir lýðveldishátíðina 1944. Og prímus-hitaður saxbautinn og Bíldudals-baunirnar grænu vöktu upp góðar minningar og forsetinn sagði okkur sögur af útilegum sínum forðum tíð. Já, þannig er forsetinn okkar maður líka - og rétt eins og ég og þú og Davíð vinur okkar, fyrst og fremst mannlegur. Eini munurinn er sá að hann er forseti íslensku þjóðarinnar en við ekki. Og vonandi tekst honum fljótlega að verða það sameiningartákn sem þjóðin vill að sönnu eiga í forseta sínum. Við það mikla uppbyggingarstarf munu þær systur, auðmýktin og hógværðin, örugglega koma forsetanum okkar að góðu gagni og í ljósi þess þori ég að fullyrða að skjótt muni skipast veður í lofti – að orrahríðinni um forsetann okkar og forsetaembættið muni senn slota.
Bjartur