Fara í efni

Í óvissuferð með Neró

Dapurlegt er hlutskipti Framsóknarflokksins. Einu sinni átti flokkurinn forsvarsmenn sem sögðu að allt væri betra en Íhaldið. Þar var átt við að í samvinnu við aðra flokka væri Framsóknarflokkurinn líklegri til að ná stefnumálum sínum fram en í samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn. Þessi tími er löngu liðinn. Nú er gengi Framsóknarflokksins ekki lengur metið með hliðsjón af stefnumálum flokksins heldur hve vel honum tekst að halda sér og sínum nærri kjötkötlunum. Enda þótt Framsóknarflokkurinn lúffi fyrir Sjálfstæðisflokknum í nánst öllum stefnumálum þá verður hitt ekki af honum skafið að núverandi forystu hefur tekist að halda flokknum við völd í tvö kjörtímabil. Staksteinar Morgunblaðsins segja þetta stórkostlegan árangur. Vissulega má taka undir þetta ef mönnum þykir meira vert um flokkshag en þjóðarhag. Framhjá því verður ekki horft að samkvæmt helmingaskiptareglu hefur Framsóknarflokknum tekist í samstarfi sínum við Sjálfstæðisflokkinn að sölsa undir sig ýmsar fyrrum þjóðareignir og koma gæðingum sínum þar á fóður – og það ekkert smáræði! Ríkisbankarnir eru að sjálfsögðu nærtækasta dæmið.

Nú líður senn að því að Davíð Oddsson stígi úr stóli forsætisráðherra landsins. Hinn dýri stóll blasir nú við formanni Framsóknarflokksins, Halldóri Ásgrímssyni. Hugsanir hans eru allri þjóðinni sem opin bók: Allt skal til vinna að fá að setjast í sætið. Þetta veit að sjálfsögðu dramatíkerinn Davíð Oddsson, sem nú leikur gráan leik gagnvart samstarfsaðila sínum. Um nokkurt skeið hefur hann nefnilega haft af því tómstundagaman að reyna á þolrifin í Framsókn. Leikurinn gengur út á að kanna hversu lágt Framsókn er tilbúin að lúta til að fá áframhaldandi aðild að ríkisstjórn. Forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins veit að nú þarf dramað að fara að ná hámarki því senn falla tjöldin. Í góðu leikhúsi er áhorfandanum gjarnan komið á óvart þegar nær dregur leikslokum. Ekki held ég þó að áhorfendur hafi haft hugarflug til að sjá fyrir að höfundur væri tilbúinn að ganga eins langt og nú hefur verið gert: Bera eld að sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins. En viti menn, Halldór Ásgrímsson bregst ekki frekar en fyrri daginn og mætir umsvifalaust í sjónvarp og segir þetta nú ekki mál af þeirri stærðargráðu að ástæða sé til að hafa af því þungar áhyggjur. Menn komist í gegnum þetta einsog annað! Ég er ekki alveg viss um að leikskáldinu hafi þótt þetta passa inn í aðdragandann að klímax verksins. Eiginlega hætti stykkið á þessum punkti að vera spennuþrungið drama og varð þess í stað að einhverju allt öðru. Ég gæti vel trúað að höfundur verksins sé mér sammála um þetta – svona innst inni.

En hvað næst spyr þjóðin og fylgist áfram með för þeirra félaga, Davíðs og Halldórs. Ferðalag þeirra virðist áfram ætla að bjóða upp á frekari uppákomur og minnir nú um margt á óvissuferð. Í sögu Framsóknarflokksins gæti þessi kafli í sögu flokksins til dæmis heitið, Í óvissuferð með Neró.
Með kveðju,
Hafsteinn Orrason