Fara í efni

Um synjunarvald og málskotsrétt

Eitt sem hefur truflað mig í allri þessari umræðu um stjórnarskrárdeiluna er þetta: Það er mikið talað um málskotsrétt forseta. Ég skil stjórnarskrána þannig að forsetinn hafi synjunarvald, ríkisstjórnin hins vegar réttinn til að skjóta til þjóðar til að hnekkja neitunarvaldinu. En ég er ekki lögfræðingur og varla skiptir þetta miklu máli lengur enda best að færa þetta allt saman frá forseta og ríkisvaldi til þjóðarinnar.
Þ.

Þakka þér fyrir bréfið. Í fyrsta lagi tel ég að þú getir fullt eins haft skoðun á þessu og lögfræðingar, málfræðingar og aðrir fræðingar. Í stjórnarskrá Íslands segir á þá leið að forseti skuli staðfesta lög sem samþykkt hafa verið á Alþingi. Synji hann lagafrumvarpi staðfestingar, fái það engu að síður lagagildi en skuli þá svo fljótt sem auðið er bera það undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.
Ég held að þessi klásúla stjórnarskrárinnar hljóti að skiljast  svolítið eftir því hvar í mannkynnsögunni sjónarhóll okkar er. Fyrr á tíð höfðu konungar og í sumum tilvikum aðall og þá lávarðadeildir þinga, rétt til að stöðva lög eða fresta gildi þeirra eftir atvikum. Síðari tíma menn horfa fremur til lýðræðislegs réttar almennings. Og þannig vil ég sklija okkar stjórnarskrá. Forseti getur skotið samþykktu lagafrumvarpi til þjóðarinnar ef honum þykja efni standa til eins og í þessu tilviki. Ef hins vegar ríkisstjórnarmeirihlutinn sér að sér, afnemur lögin og þar með tilefni málskotsins, þá fer því fjarri að slíkt trufli mig og finnst mér reyndar menn ganga nokkuð langt í orðrýni í texta stjórnarskrárinnar þegar heimtað er að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla eftir sem áður. Gefum okkur að um hefði verið að ræða ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun. Ríkisstjórnarmeirihlutinn hefði séð að sér og hætt við virkjunaráformin. Varla hefðum við heimtað að atkvæðagreiðsla færi fram!
Öðru máli gegnir ef þjóðinni væri fært frumkvæðisvald eins og ég hef talað fyrir og hún gæti óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, jafnvel óháð því hvað Alþingi væri að fást við þá stundina. Þá teldi ég allt öðru máli gegna en þegar þessi öryggisventill sem nú er í stjórnarskránni er virkjaður og gildir einvörðungu gagnvart nýsamþykktum lagafrumvörpum.
Auðvitað á þetta vald fyrst og fremst að hvíla hjá þjóðinni. Hvort forsetinn eigi áfram jafnframt að vera einhvers konar öryggisventill, hlýtur þó einnig að vera til umræðu.
Með kveðju,
Ögmundur