Fara í efni

Er skynsamlegt að selja Símann ?

Geir H. Haarde fjármálaráðherra sagði nýverið í Kastljósþætti, þar sem hann lá undir gagnrýni fyrir að telja fullkomlega eðlilegt að Síminn fjárfesti í SkjáEinum,  “að það sem ég geri mér hinsvegar vonir um, að þetta sé eitthvert tímabundið ástand, þannig að í fyrsta lagi losnum við við Símann, þ.e.a.s. almenningur leysi úr læðingi þau verðmæti sem að þarna eru, tugi milljaðra, sem almenningur á, sem hægt er að nota í þjónustu hans annars staðar heldur en þarna. Ástæðulaust að binda þarna. Til dæmis til að nota í að grynnka á skuldum ríkisins o.sv.frv. Alls kyns verkefni sem bíða. Þegar það er búið, þá gerist eitthvað sem að nýir eigendur Símans hafa vald á. Hvort að það er akkúrat í sömu átt og hér er mörkuð stefnan af hálfu fyrirtækisins, eða eitthvað allt annað. Það verður bara að koma í ljós!”

Þarna var fjármálaráðherra að lýsa sameiginlegu símafyrirtæki landsmanna, sem eðli málsins samkvæmt er í einokunarstöðu í mjög stórum þáttum síma- og fjarskiptaþjónustu. Eðli málsins samkvæmt er enginn grundvöllur til samkeppni á stærstum hluta þessa símanets, frekar en að talað væri um að rétt væri að selja vegakerfið og koma á samkeppni þar!

Eigendum þessara samfélagslegu stoðkerfa, s.s. línulagna rafmagns, síma o.sv.frv. hefur aldrei verið gerð viðhlítandi grein fyrir í hverju hagur til frambúðar er fólginn í að láta slík einstök kerfi af hendi til einkaaðila og verða þar með háðir einokunaraðstöðu þeirra. Þetta hefur verið reynt vítt og breitt um heiminn á undanförnum árum, undantekningarlaust með þeim afleiðingum að verð til almennings hefur rokið upp! Það sem er merkilegast við ofanskráð svar fjármálaráðherra er einkum tvennt : Í fyrsta lagi telur hann skynsamlegt fyrir eigendurna, almenning að selja sameiginlegt fyrirtæki sem árum saman hefur skilað um 40% hagnaði fyrir afskriftir til að borga niður skuldir sem nú bera um eða innan við 1% ársvexti!

Í öðru lagi er eins og fram kemur í svari hans, alls óvíst hvað tekur við eftir sölu Símans.

Alvara málsins er að æðstu ráðamenn landins vinna að því leynt og ljóst að selja helstu samfélagslegu stoðfyrirtæki landsmanna undir yfirskini “hagræðingar”.  Meginástæðan er blind trú á markaðslausnir á öllum sviðum. Endanleg ávörðun um sölu Símans mun eingöngu ráðast af því hvort “nægilega hátt” verð fæst. Hvaða afleiðingar það hefur fyrir almenning, verður einfaldlega að mati fjármálaráðherra að koma í ljós!
Ísmann