Er stríð aldrei réttlætanlegt?
Ég á erfitt með að skilja afstöðu Vg til stríðsins í Afganistan.
Hvað hefðu Bandaríkin átt að gera? Ekkert? Er aldrei réttlætanlegt
að fara út í stríð að ykkar mati?
Sveinsson
Þakka þér bréfið. Það má halda áfram með þessa spurningu.
Mannréttindi hafa verið fótum troðin í Afganistan í langan tíma.
Var rangt að ráðst ekki fyrr inn í landið? Var sama hver gerði það
svo fremi sem takmarkið var að efla mannréttindi, ekki síst kvenna?
Einmitt það sögðust Sovétmenn vera að gera þegar þeir voru með
setulið í Afganistan fyrir 1980 og vel fram á níunda
áratuginn. Það er vissulega staðreynd að stjórnin sem þeir studdu
átti í höggi við það sem við myndum kalla miðaldalénsveldi,
höfðingjaveldi sem beitti konur harðræði. Engu að síður voru
Sovétmenn gagnrýndir um nær allan heim fyrir árásarstríð, fyrir að
hugsa fyrst og síðast um eigin hagsmuni. Sama á við um Bandaríkin
nú. Þau eru fyrst og fremst að gæta eigin hagsmuna í þessum
heimshluta. Mannréttindin eru í öðru eða þriðja sæti. Reyndar held
ég að þeir hirði lítið um þau nema til málamynda. Colin Powel sem
nú var að láta af störfum sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna,
sagði fljótlega eftir innrásina í Afganistan, að hagsmunum
þarlendra kvenna yrði aldrei fórnað, "engir samningar verða
gerðir á kostnað afganskra kvenna." Ekki leið langur tími þangað
til að einmitt það var gert. Samið var við blóði drifna stríðsherra
og þeim fenginn yfirráð yfir nær öllu landinu. Þeir fótumtroða
mannréttindin, ekki síst réttindi kvenna. Er forsvaranlegt annað en
að ráðast á þá? Ég spyr. Sjálfur kann ég ekki svarið að öðru leyti
en því að ég tel að reynslan sýni að núverandi Bandaríkjastjórn er
ekki bandamaður sem hollt er að fylgja sofandi og
gagnrýnislaust eins og núverandi ríkisstjórn gerir.
Kveðja,
Ögmundur
p.s. sjá nánar um sama efni: hér