Nóg af snæri í sveitinni

Það er dapurt að sjá hvernig Þórólfur borgarstjóri er gerður að aðalblóraböggli í olíumálinu. Vissulega hefur hann sýnt dómgreindarleysi að segja ekki af sér strax, sérstaklega í ljósi þess að Þórólfur er viðkunnanlegur maður sem ekki verður í neinum vandræðum með að finna sér nýja vinnu.
Við í sveitinni veltum fyrir okkur hvenær komi að forstjórum og stjórnum Shell, ESSO og OLÍS.
Að vísu var forstjóri Shell giftur dómsmálaráðherra og hefur eflaust ekkert grunað hvað væri á seyði, þegar eiginmaðurinn fór út í horn og hvíslaði í símann, enda kannski verið að skoða gullklósettin í glamúrbæklingunum.
Forstjóri ESSO er væntanlega að ræða við núverandi forsætisráðherra hvernig fela megi stuðning fyrirtækisins við Framsókn.
Ekki bætir úr skák að Þórólfur skriftaði fyrir fyrrverandi borgarstjóra og núverandi væntanlegum (alla vega samkvæmt eigin væntingum) leiðtoga, Ingibjörgu Sólrúnu. Hvernig kemst Samfylkingin út úr því? Ekki svo að skilja að Samfylkingin komi til með að halda vöku fyrir okkur hér á bæ.
Ekkert þekkjum við til OLÍS, en skemmtilegt var hvernig Óli sálugi í OLÍS keypti fyrirtækið með ávísun frá því sjálfu.
Annars erum við í Snotru á því að þetta sé aðeins lítið brot af ísjakanum. Hvað um samráð tryggingafélaganna, bankanna, símafélaganna,  byggingarvöruverslana, matvöruverslana og fleiri og fleiri? Gunnar Birgisson, þingmaður Íhaldsins, hélt tárvota ræðu á þinginu í vikunni þar sem þessi mál voru til umræðu. Hann sagðist harma að menn væru tilbúnir að hengja þá menn sem hrasað hefðu í þessu máli. Um bæinn gengju menn með snærishönk í vasanum, þá væntanlega til að hafa hengingarsnúruna klára. Ábúendur hér í Snotru eru ekki mikið gefnir fyrir að hengja fólk, erum því reyndar fráhverf. Hins vegar þarf að láta menn svara til saka ef þeir hafa brotið alvarlega af sér. Það á við í þessu máli. Það er skuggaleg tilhugsun ef þessi þingmaður Sjálfstæðisflokksins er raunverulega að biðja okkur um að láta málið niður falla. Slíkt ætti ekki upp á pallborðið hér í sveit, enda nóg til af snæri hér á bæjum.
Runki frá Snotru

 

    

Fréttabréf