Örfá orð um ábyrgð og pólitíska ábyrgð

Sæll Ögmundur.
Einu sinni var kanadískt olíufélag sem langaði að slá sér niður á Íslandi og selja Íslendingum ódýrara bensín og útgerðinni ódýrari olíur. Þetta vildi olíufélagið gera vegna þess að það vissi, eins og við öll, að hér ríkti fákeppni og hér var hægt að græða á bensínsölu. Þetta var um svipað leyti og Reykjavíkurlistinn lagði íhaldið að velli í Reykjavík. Áhugi Kanadamannanna vakti vonir alþýðukonu um lægra orkuverð og hún fylgdist spennt með tilraunum þeirra til að koma sér fyrir í Reykjavík og nágrenni. Eitthvað gekk það illa. Skyndilega varð lítið framboð af lóðum undir bensínstöðvar, erfiðleikar að koma olíuskipum að í höfnum í Reykjavík og þannig mætti lengi telja. Allt þetta brölt Kanadamannanna endaði svo með því að þeir hættu við að koma til Íslands. Við vissum þá að bensínverð var það sama hjá öllum olíufélögunum, tvisturinn kostaði það sama og við vissum að fákeppni væri ríkjandi og samráð. Við vissum þetta og borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans vissu þetta. Embættismaðurinn, borgarstjórinn, ráðinn af af R-listanum, vann í einu olíufélaganna og verður senn þvingaður af fulltrúum Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs til að fara frá. Áður en það gerist, eða strax eftir að það gerist, langar mig til að spyrja þig Ögmundur: Hvernig beittu fulltrúarnir sem nú eru undir merkjum VG sér fyrir því 1994 og 1995 að brjóta á bak aftur fákeppni íslensku olíufélaganna með því að berjast fyrir því að kanadíska félagið gæti sprengt upp innlenda samráðið? Þarf ekki að athuga gaumgæfilega hverjir það voru sem komu í veg fyrir að Irving Oil kæmust til landsins? Allt þetta samráð og öll þessi fákeppni var öllum ljós þegar Kanadamennirnir voru að reyna að komast hér að.
Ólína

Þakka bréfið Ólína. Þú spyrð mig spurninga. Ég mun kanna málavexti áður en ég svara þér.
Ögmundur

Fréttabréf