Fara í efni

KIEFER Í BÆNUM !

Mikið þykir mér alltaf átakanlegt þegar fjölmiðlarnir okkar smækka þjóðina niður í hið óendanlega með því að elta á röndum frægt fólk sem kemur hingað til lands. Heldur fannst mér lítið leggjast fyrir Ríkisútvarpið sem birti það sem eina helstu frétt í einum aðalfréttatíma sínum að leikarinn Kiefer Sutherland væri “í bænum”.  Með þessu slúðri gerist Ríkisútvarpið óþægilega fáfengilegt fyrir minn smekk. Þú hefur oft skrifað um þetta Ögmundur og ef ég man rétt hvatt til þess að við létum gestkomandi fólk í friði og gerðum Ísland þannig að eins konar griðlandi fyrir fólk sem alla jafna þarf að búa við ágang af hálfu fréttamanna og ljósmyndara. Þessi forvitni og ókurteisi er fólkinu til ama en smæst verðum við sem gónum og störum. Fjölmiðlarnir hafa tekið að sér þetta hlutverk fyrir okkur. Ekki er það í minni þökk.
Sunna Sara

Þakka þér bréfið Sunna Sara. Ég er hjartanlega sammála þér. það er rétt munað að ég hef oft orðað þessa hugsun í blaðagreinum og hér á síðunni. Læt fylgja netslóð um nýleg skrif um þetta efni hér.
Kveðja,
Ögmundur