Fara í efni

STÓRT OG LÍTIÐ

Sæll Ögmundur.
Sé þú ert að fjalla um mistökin sem gerð voru á Stöð 2 þegar fréttamaður taldi sig vera með upplýsingar í höndunum sem sönnuðu að forsætisráðherra væri ósannindamaður. Sé líka að Páll Magnússon, fréttastjóri Stöðvar 2, segir og leggur á það sérstaka áherslu í Morgunblaðinu að hann hafi ekki séð fréttina áður en hún barst út á öldur ljósvakans.  Mig minnir að hann hafi sjálfur lesið aðfararorðin að þessari mislukkuðu frétt og því er áleitin spurningin hvort hann hafi ekki séð gögnin sem lágu fullyrðingunni til grundvallar. Fyrir mann sem ekki hefur inngrip í vinnulag á fréttastofunni er nærtækt að álykta að þegar fréttamaður telur sig geta sannað að forsætisráðherra hafi sagt ósatt þá hljóti það að vera mál sem fréttastjóri þurfi að skoða sérstaklega áður en hann les aðfararorðin örlítið rjóður í kinn. Hafi Páll Magnússon, fréttastjóri Stöðvar 2, lesið og kynnt sér gögnin átti formaður fagfélagsins ekki að segja starfi sínu lausu, eða hvað finnst þér Ögmundur, þú sem greinilega hefur velt málinu fyrir þér bæði sem fyrrverandi fréttamaður og fagfélagsformaður? Þetta er ekkert stórmál, lítið, eins og upphafleg merking orðsins Páll, a.m.k. þegar tækniatriði af þessu tagi er borið saman við að þurfa að bera ábyrgð á afleiðingu stríðsins í Írak, en úr því þú hófst máls á þessu á síðunni er þetta umtalsins virði. Geri síður ráð fyrir að verkamenn í Spunaverksmiðju Hringsins taki upp þennan vinkil.
Stefán

Sæll Stefán og haf þakkir fyrir bréf þitt. Ég er sammála hverju orði þínu. En gefum þessu máli tíma  - nokkra daga. Sjálfum finnst mér fráleitt að fréttastofa Stöðvar 2 hafi ekki boðist til að ráða Róbert Marshall að nýju til starfa. Ég hef velt því fyrir mér hvort fjölmiðlaeigendur á markaði séu að ganga frá einhverri allsherjar sáttagerð við valdakerfið í landinu. Ef svo er þá er ásæða til að óttast undirgefni fjölmiðlanna við pólitík og peningavald.
Kveðja,Ögm.