Fara í efni

ÞEGAR MIKIÐ LIGGUR VIÐ

Þótt oft sé lífið þrungið heift og harmi
og hörmungarnar kvelji marga sál
þá býr í hverjum manni virkur varmi
og von sem getur tendrað mikið bál
því þegar hjörtun fyllast eymd og ótta
og angist rekur sálirnar á flótta
þá er rétt að okkar besti bjarmi
bæti öll hin mestu vandamál.

Þau fundu ógn og öldurót
og ástvini misstu
en við sem göngum guði mót
með gull í hverri kistu
við skulum standa hlið við hlið
með hjálpina fyrstu.
Við getum styrkt þann góða sið
að gefa vel ef mikið liggur við.

Í örbirgð reynist heimsins harmur þungur
og hjörtu margra þola fár og kíf
er Jörð af ógnarmætti opnar sprungur
við úfið hafið þrá menn skjól og hlíf
og margur fær í þraut og þjáning saknað
þess sem getur aldrei framar vaknað
en við sem skiljum hvorki harm né hungur
þeim hjörtum getum gefið betra líf.

Þau fundu ógn og öldurót
og ástvini misstu
en við sem göngum guði mót
með gull í hverri kistu
við skulum standa hlið við hlið
með hjálpina fyrstu.
Við getum styrkt þann góða sið
að gefa vel ef mikið liggur við.

Kristján Hreinsson, skáld

Heill og sæll Kristján og þakka þér fyrir að senda mér ljóðið eins og ég bað þig um. Það er sérlega fallegt og var áhrifaríkt í flutningi Egils Ólafssonar og barnakórsins
í söfnuninni á laugardag. Kærar þakkir.
Ögmundur