Fara í efni

DAUÐINN Á GAZA KL. 23.00

Allt of sjaldan sinnir Ríkissjónvarpið því mikilvæga hlutverki að sýna athyglisverða og vekjandi þætti um alþjóðamál. Meðan svo er ástatt hlýtur það að vera lágmarkskrafa að það litla sem þó er boðið upp á sé sýnt á skikkanlegum útsendingartíma. En því er nú aldeilis ekki alltaf að heilsa. Í gærkvöldi var heimildarmyndin Dauðinn á Gaza á dagskránni og var kynnt á heimasíðu RÚV með eftirfarandi hætti:

Breska heimildarmyndin Dauðinn á Gaza (Death in Gaza) er um ófriðinn á Gazasvæðinu í Palestínu. Þar er fjallað um þær hörmungar, yfirgang og ofbeldi sem Palestínumenn hafa mátt þola af hendi Ísraelshers um langt árabil og um þann dapurlega veruleika sem börn á svæðinu alast upp við. Höfundur myndarinnar, James Miller, náði ekki að ljúka við hana að fullu vegna þess að ísraelskir hermenn myrtu hann meðan gerð hennar stóð yfir. Atriði í myndinni eru ekki við hæfi barna.

Þátturinn átti, svo sem sjá má, að hefjast svo seint sem kl. 22.40. Í ofanálag seinkaði dagskránni um 20 mínútur vegna beinnar útsendingar frá annars stórskemmtilegri uppskeruhátíð tónlistarmanna. Athyglisverð og lærdómsrík heimildarmynd fór sem sagt í loftið um það leyti sem flest venjulegt fólk er um það bil að ganga til náða. Getur Ríkissjónvarpið virkilega ekki gert betur á þessu sviði?

Þjóðólfur