Fara í efni

ENDURMENNTUN ALÞINGISMANNA

Sæll Ögmundur.
Við erum hérna nokkrar vinkonur sem höfum verið að velta því fyrir okkur hvort alþingsmenn og ráðherrar eigi kost á að sækja námskeið eða endurmenntun þann tíma sem þeir eru kjörnir til þingstarfa. Okkur datt í hug til dæmis sið - eða rökfræðinámskeið. Tilefni þess að spurningarnar vöknuðu hjá okkur yfir saklausum kaffibolla í kvöld eru yfirlýsingar forsætisráðherra eftir að hann fékk aftur málið. Fyrst ætlaði ráðherra að svara öllu um Íraksmálið sem þú birtir til allrar hamingju á netinu hjá þér. Eftir að hafa lesið viðtalið misstum við þráðinn í málinu öllu. Það lenti einhvern veginn allt í kross hjá kallinum. Svo ætlaði forsætisráðherra að útskýra Landssímamálið. Það lenti líka í tómu tjóni hjá ráðherranum. Fyrst segir hann að þjónustan batni með sölu Símans, svo segir hann að dreifikerfi landsbyggðarinnar batni við sölu Símans og svo bætir hann við í kvöld að fyrst vilji hann selja Símann og setja svo 800 milljónir í sjóð til að byggja upp dreifikerfi GSM meðfram þjóðveginum því enginn sé að sinna því. Í gærkvöldi fjallaði forsætisráðherra um afnotagjöld RÚV. Þau vill hann leggja niður af því þau séu barn síns tíma, rétt eins og menntamálaráðherrann sem er að bregðast við athugasemdum ESA sem hafa enn ekki borist! Þessi ruglandi og þessi þvæla er með slíkum endemum að okkur stöllurnar setur hljóðar. Spurningin fremst í bréfinu er því fram sett af fullri alvöru. Við gátum ekki klárað að fara yfir helstu yfirlýsingar ráðherrans um bankamálin en þær toppa í raun flest sem komið hefur frá honum. Við veltum því fyrir okkur í sambandi við það mál hvort ráðherra hefði eitthvað að fela, hvort hann væri stór hluthafi í öðrum hvorum bankanum eða hvort hann hefði óhreint mjöl í pokahorninu. Allt þetta verður til þess að ég spyr mig: Af hverju þurfa stjórnmálamenn að safna spunakerlingum í kringum sig ef þeir temja sér að segja almenningi satt og rétt frá? En spurningin er endurtekin: Eiga stjórnmálamenn á Alþingi kost á endurmenntun? Smámál að lokum sem við veltum líka fyrir okkur. Getur verið að Páll Magnússon, aðstoðarmaður iðnaðarráðherra sem er vinkona forstjóra OG Vódafóns sem á 365 ljósvakamiðla og Gunnlaugur Sævar sem eitthvað tengdist Skjá 1 séu að semja nýtt lagafrumvarp um RÚV?
Kveðja,
Ólína