Fara í efni

"RÍKISSTJÓRNARSJÓNVARPIÐ" TIL BJARGAR HALLDÓRI?

Heill og sæll Ögmundur !
Alveg gengur fram af mér að sjá hvernig ríkissjónvarpið, sem greinilega væri réttara að kalla "ríkisstjórnarsjónvarpið", eltir Halldór Ásgrímsson þessa dagana fram og aftur um landið og kemur svo með hallærislegar langlokufréttir á kvöldin þar sem Halldór er yfirleitt ekki að segja nokkurn skapaðan hlut. Þegar hann er svo að fjalla um einhver deilumál líðandi stundar eins og einkavæðingu Símans með grunnnetinu þá fær hann einn að rausa um það og spilaðir langir eintalsþættir með þessu líka skemmtiefni þar sem hann tuðar um þetta á Verslunarþinginu eða yfir einhverjum hræðum á Framsóknarfundi á Selfossi. Ekki er svo mikið sem haft fyrir því hjá hinu óhlutdræga ríkissjónvarpi eða hitt þó heldur að nefna önnur sjónarmið. Hafið þið ekki t.d. verið með eitthver mál gegn þessu að selja Símann hjá Vinstri-grænum?
Hvað heldur þú Ögmundur; er í gangi einhver sérstök aðgerð sem á að bjarga Halldóri eftir alveg hörmulega byrjun í embætti forsætisráðherra? Manni finnst Mogginn vera dálítið í þessu líka. Svo er sagt að Halldór sé með heilan hóp auglýsingamanna og áróðursmanna á launum hjá ríkinu við að troða sér inn í fjölmiðlana og þar sé varla starfsfriður fyrir ágangi þessara manna. Geta ráðherrarnir núorðið ráðið sér eins marga pólitíska aðstoðarmenn og þeir vilja og haft þá á launum hjá okkur skattborgurunum? Ég verð að segja að mér finnst fjandi hart að þurfa að borga þannig gegn um skattana mína áróðurinn hjá þessu liði, því ég er algerlega orðinn andvígur þessari ríkisstjórn. Hvað getum við skattborgararnir gert Ögmundur þegar fjölmiðlar sem eiga að þjóna allri þjóðinni og gæta hlutleysis virðast þjóna svona undir valdhafana? Annars er kannski óþarfi að hafa af þessu miklar áhyggjur. Mér finnst stundum að þessar útsendingar séu verstar fyrir Halldór sjálfan og kannski er það einmitt skýringin á því hvað hann er orðinn óvinsæll og fáir treysta honum að hann hefur sést svo mikið eftir að hann varð forsætisráðherra. Það væri gaman að heyra hvað þér finnst um þetta Ögmundur af því þú varst líka í fjölmiðlunum í gamla daga.
Kveðja
Jóhann SG.

Þakka þér bréfið Jóhann. Ég neita því ekki að heldur finnst mér dapurlegur þessi fréttaflutningur af forsætisráðherranum okkar á fundi hér og á rölti þar í stað þess að kryfja til mergjar þau mál sem ríkisstjórnin undir hans forsæti er að knýja fram á Alþingi. Þar hefur Halldór Ásgrímsson verið sjaldséður gestur að undanförnu.
Með kveðju,
Ögmundur