Fara í efni

TIL HAMINGJU MEÐ VIÐURKENNINGUNA JÓHANNA

Heil og sæll Ögmundur.
Mig minnir að ég hafi séð haft eftir verkamanni úr Spunaverksmiðju hringsins í blaði að rannsóknarblaðamennska væri sprelllifandi á Íslandi. Ég neita því ekki að ég varð hugsi þegar ég las þetta og velti nokkuð fyrir mér ummælunum. Svo kom að því að blaðamenn lyftu sér upp og skiptu með sér blaðamannaverðlaunum. Um þau má hafa langt mál og vafalaust sýnist sitt hverjum um þá sem tilnefndir voru. Það sem mér þykir merkilegast við þessi blaðamannaverðlaun er að Jóhanna Kristjónsdóttir skuli ekki hafa verið tilnefnd til verðlauna fyrir rannsóknarblaðamennsku. Árum saman hefur hún skrifað og upplýst okkur lesendur Morgunblaðsins um menningu og lífshætti í fjarlægum löndum. Hún hefur opnað okkur innsýn í heim sem er okkur að öðru leyti lokaður og ég velti því fyrir mér hvernig dómnefndarmenn, ábyrgðarmenn blaðamanna og fleiri komust hjá því að láta sér detta nafn Jóhönnu í hug. Ég heyrði viðtal við Jóhönnu í gær og þá allt í einu skildi ég hvernig í málinu lá. Fréttamennirnir voru svo sénerandi áhugalausir og illa upplýstir um það sem Jóhanna var að reyna að útskýra fyrir þeim að mér leið hálf illa að hlusta á þáttinn. Í áhugaleysi fréttamannanna í dag liggur kannski skýringin á því af hverju blaðamaðurinn Jóhanna var ekki einu sinni tilnefnd af starfsbræðrum sínum. Gott að til var Hagþenkir því Jóhanna á skilið að fá verðlaun fyrir blaðamennsku sína. Blaðamannasamtökin og dómnefndin hefðu reist sig örlítið með því að láta sér detta í hug Jóhönnu Kristjónsdóttur, en það átti ekki fyrir þeim að liggja. Til hamingju Jóhanna.
Kveðja
Stefán