Fara í efni

HVER ER BALDUR OG HVER KONNI?

Sæll Ögmundur.
Fréttastjóramálið hjá RÚV er með þeim endemum að ég get ekki orða bundist. Það er eins og sjötti áratugurinn sé aftur runninn upp. Mér er í fersku minni sá tími. Tívolíið í Vatnsmýrinni til dæmis. Endalaus sumarkvöld og troðningur, ryk og kandífloss, sem nuddaðist í okkur hvernig sem maður snéri sér. Við notuðum hvert tækifæri krakkarnir til að smygla okkur inn enda stutt að fara. Þarna var tígur og rafmagnsbílar og maður uppá sviði, með annan á hnénu, og við börnin að horfa agndofa á. Baldur og Konni. Heimsmaðurinn Baldur, fágaður fram í fingurgóma, í steingráum jakkafötum með slaufu, og Konni skrækur og óútreiknanlegur. Aldrei til friðs. Átti það jafnvel til að gera lítið úr læriföður sínum og tilsjónarmanni.  Myndinni skaut upp í hugann þegar ég las einhvers staðar að Finnur Ingólfsson, forstjóri VÍS, og bílstjóri Ólafs Ólafssonar í Keri, þegar viðskiptaráðherra var búinn að afhenda þeim félögum Búnaðarbankann, hefði verið “ósýnilegi maðurinn”, plottarinn í fréttastjóramálinu, og reynt til dæmis að fá einhvern Eggert til að sækja um starfið sem hann neitað. Ekki skrítið að Halldór Ásgrímsson segði sigri hrósandi á tröppum stjórnarráðsins, engin pólitík í málinu. Lærisveinninn gæti hafa séð um þann þátt málsins eða hann beitt fyrir sig spunakerlingunum. Nú er DV ekki áreiðanlegasta heimild um samtímann, en Finnur hefur ekki borið það til baka að hann hafi verið að leita að fréttastjóra útvarpsins fyrir Framsóknarflokkinn. Það er því nærtækt að álykta að fréttamoli DV sé sennilega réttur. Fróðlegt væri að heyra fréttmenn spyrja Finn Ingólfsson út úr um fréttastjóramálið. Framsóknarmenn í Reykjavík hvísla um það lágt að hann hafi í fárra manna hópi látið að því liggja, áður en matsferli Markúsar Arnar Antonssonar um umsækjendur var yfirstaðið, hver fengi starfið. Sömu menn hvísla um að Finnur Ingólfsson gangi undir nafninu “ósýnilegi maðurinn”, að hann sé maðurinn á bak við aðförina að Siv Friðleifsdóttur og kominn í þá sterku stöðu að vera með lyklavöldin að margslungnum leyndardómum Framsóknarflokksins. Hver er nú Baldur og hver Konni, Finnur eða Dóri? Þarft þú ekki að hræra betur í pottinum Ögmundur svo  við fáum upp á yfirborðið þó ekki væri nema í stutta stund þessa ósýnilegu bestu bita sem sökkva til botns?
Ólína