Fara í efni

ÞAÐ Á EKKI AÐ ÞAGGA NIÐUR Í FISCHER

Bobby Fischer segir að loka eigi herstöð Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli og reyndar líka sendiráði Kana. Eftir þessar yfirlýsingar var sagt að Bobby væri geðveikur. Ekkert veit ég um geðheilbrigði Bobbys Fischers. En ekki þykir mér þessar yfirlýsingar vera neitt annað en heilbrigðisvottur og svolítið hallærislegt að hlusta á stuðningsmenn hans, skelfingu lostna, reyna að þagga niður í honum. Hvað á maðurinn að segja, hnepptur í varðhald að kröfu Bandaríkjastjórnar fyrir að tefla á Balkanskaganum  í trássi við kröfur herveldisins sem var þá í tímabundnum ofbeldisaðgerðum þar. Síðan hefur þessi maður þurft að sæta ofsóknum og verið í reynd flóttamaður svo sem í Ungverjalandi, á Filippseyjum og í Japan þar sem honum var stungið inn að kröfu Bandaríkjastjórnar og látinn dúsa í einangrun í meira en átta mánuði.  Jafnvel þótt hann kunni að vera tæpur á geðsmunum þá eru ásakanir hans að þessu leyti fullkomlega réttmætar að mínu mati.
En sem sagt, um Bobby Fischer veit ég lítið en undir kröfur hans um að herinn fari úr landi tek ég heils hugar. Það á ekki að þagga niður í neinum manni - allra síst þegar hann vill herlaust Ísland.
Haffi