Fara í efni

BELTI OG AXLABÖND

Við í Snotru höfum verið  að velta því fyrir okkur hvort maður þurfi  að virkilega fara í Kvennó til að læra að girða sig. Samanber:  "Það er nefnilega ekki þannig, að einhver fundur uppi í Landsvirkjun hreki athugasemdir og ábendingar vísindamanna. Það er akkúrat öfugt, að varnaðarorð Guðmundar Sigvaldasonar, Gríms Björnssonar og Ástu Þorvaldsdóttur og fleiri hafa verið staðfest; það hafa reynst fyrir þeim. Og skömmin er þeirra stjórnvalda, vísindamanna og fyrirtækja, sem höfðu þetta að engu, gerðu ekkert með þetta á þeim tíma sem átti að taka ábendingarnar alvarlega og rannsaka þær frekar. Og auðvitað var hneyksli að vaða af stað með þessa framkvæmd, troða frumvarpi, sem heimilaði hana gegnum Alþingi og þegja um og gera ekkert með þær ábendingar sem þarna lágu fyrir. Og þeir sem tala um 150 milljóna viðbótarkostnað vita ekki mikið hvað þeir eru að segja. Það liggur þegar fyrir að nokkurra milljarða viðbótarkostnaður vegna viðbótarframkvæmda,” sagði Steingrímur Sigfússon, sem er samkvæmt  vef Alþingis  með  “Stúdentspróf MA 1976. B.Sc.-próf í jarðfræði HÍ 1981. Próf í kennslu- og uppeldisfræði HÍ 1982. Vörubifreiðarstjóri á sumrum 1978-1982. Við jarðfræðistörf og jafnframt íþróttafréttamaður hjá Sjónvarpi 1982-1983.

Þessu svarar Valgerður Sverrisdóttir, sem er samkvæmt vef Alþingis er með “Próf frá “Kvennaskólanum í Reykjavík 1967. Þýskunám við Berlitz-skóla í Hamborg 1968-1969, enskunám við Richmond-skóla í London 1971-1972.” :
"Eftir að hafa kynnt mér staðreyndir málsins og með hvaða hætti brugðist er við þessum nýju upplýsingum við hönnun og byggingu stíflnanna er ég þess fullviss að ekki er hætta á ferðum við rekstur Kárahnjúkavirkjunar,” sagði Valgerður. „Ég hef áður talað í sambandi við óskylt mál um belti og axlabönd. Ég held að í þessu tilfelli sé óhætt að tala um tvenn axlabönd og tvö belti.”  

Ég man ekki betur en þetta sé gamall frasi frá þér Ögmundur um beltið og axlaböndin þegar þú líktir verðtryggingu og breytilegum vöxtum við belti og axlabönd. Valgerður át þetta síðan upp og ekkert nema gott um það að segja að hún hrífist af frasanum. Hér í Snotru finnst okkur þó svoldið sérstakt hve Valgerður ráðherra virðist vera upptekin af því að fólk girði sig vel. Þegar ég var í bændaskólanum forðum daga og við buðum stelpunum í Kvennó og í Húsmæðraskólunum á árshátíðir og böll vorum við hvorki með axlabönd né belti. Svona breytast tímarnir.
Runki frá Snotru