Fara í efni

FYRIRSPURN UM STARFSLOKASAMNING –GRÍN EÐA ALVARA?

Ágæti Ögmundur.
Ég les í Fréttablaðinu í dag að fréttastjórinn sem aldrei kom til starfa á Ríkisútvarpinu muni fá starfslokasamning. Í blaðafréttinni segir m.a.: "Vinna við starfslokasamning Auðuns Georgs Ólafssonar og Ríkisútvarpsins er að hefjast, að sögn Markúsar Arnar Antonssonar útvarpsstjóra. Hann kvað lögfræðing Auðuns Georgs hafa óskað viðræðna um starfslok hans."
Síðan kemur fram að útvarpsstjóri hafi leitað lögfræðiaðstoðar um "meðferð málsins." Fram kemur að Auðun Georg "hóf störf" 1. apríl en hafi hins vegar sagt sig frá starfinu samdægurs. Nú spyr ég þig Ögmundur sem formann BSRB, er þetta grín eða alvara? Er málið ekki frágengið? Myndu menn almennt fá starfslokasamning við slíkar aðstæður, það er að segja, þegar þeir, að eigin ósk, taka ekki við því starfi sem þeim hafði verið veitt? Þetta er almenn prinsipp spurning og þess vegna spyr ég þig ekki í eigin nafni heldur sem almennur félagsmaður í verkalýðssamtökum.
BSRB félagi

Þakka bréfið. Sannast sagna hélt ég að málið væri orðið svo dapurlegt að menn myndu leggjast á eitt um að ljúka því hið snarasta – og eins og þú, hélt ég að því væri lokið. Þú spyrð beinnar spurningar. Svarið er afdráttarlaust neitandi. Starfslokasamningar hafa vissulega verið með ýmsum hætti -  og hefur færst í vöxt sú vinnuregla að eitt sé látið gilda um Jón en annað um séra Jón -  en flestir eiga starfslokasamningarnir það þó sammerkt að fjalla um eiginleg starfslok. Ef aftur á móti störf eru ekki hafin er vandséð að kveðja þurfi til lögfræðinga til að semja um á hvaða kjörum störfum skuli lokið. Augljóslega er hér verð reisa peningakröfur á hendur Ríkisútvarpinu. Það held ég að sé ekki gert í gríni. En það er skiljanlegt að þú spyrjir. Meira að segja mjög skiljanlegt.
Ögmundur