Fara í efni

ÓTRÚLEGA MIKIL UMFJÖLLUN UM EINN MANN?

Ekki veit ég hvort viðræðuþátturinn við Valgerði Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra í Ríkissjónvarpinu var hugsaður sem grín eða alvara af hennar hálfu. Valgerður var mætt á vettvang til að svara fyrir einkavæðingu ríkisstjórnarinnar. Hún sagði að það væri "ótrúlega mikið fjallað bara um einn þingmann" í sambandi við hagsmunatengsl einkavæðingarinnar. Ég tek undir með Valgerði að það er ótrúlega mikið fjallað um Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra í tengslum við einkavæðinguna. En gæti það verið vegna þess að hann stjórnar einkavæðingunni, á sjálfur í fyrirtækjum sem koma við sögu og er formaður í stjórnmálaflokki sem sagður er hagnast á einkavæðingunni? Eftir á að hyggja er kannski ekkert "ótrúlega mikið fjallað" um Halldór Ásgrímsson þegar allt þetta er haft í huga.
Sunna Sara