Fara í efni

VARAÞINGMAÐUR FRAMSÓKNAR OPNAR FÝLUPOKANN OG STURTAR YFIR ÞJÓÐINA

Ýmislegt bendir til þess að ekki fylgi hugur máli hjá öllum Framsóknarforkólfum varðandi þá siðbótartilraun flokksins að gera fjármál ráðherra og þingmanna apparatsins opinber, að ekki sé minnst á bókhald flokksins sem að sjálfsögðu er enn vandlega falið í fjóshaugnum. Varaþingmaðurinn þjóðkunni, Guðjón Ólafur Jónsson, skrifar um gegnsæi í fjármálum flokka og ráðamanna af mikilli vandlætingu á Hriflu.is og kennir frekju stjórnarandstöðunnar og almennings um það skref sem flokkur hans hefur nú stigið í fjárreiðum ráðherra sinna og þingmanna. Guðjón segir m.a.:

“Mikið hefur verið malað og malað og malað á undanförnum árum um fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. Ég man þó í svipinn ekki eftir neinum stjórnmálamanni sem hefur gefið skýrar og afdráttarlausar upplýsingar um persónuleg fjármál sín. Í öllu falli hafa þeir sem malað hafa mest og þjást hvað mest af siðferðisvitund og - þreki ekki haft frumkvæði að því. Eins og venjulega kemur það í hlut Framsóknarflokksins að hafa forgöngu um þá vinnu og stýra henni. Það er ekkert nýtt í því og full ástæða til að fagna þessu frumkvæði framsóknarmanna.
Hvort mönnum líður svo betur eða verr eftir að þingmenn Framsóknarflokksins hafa gefið upp allar upplýsingar um persónuleg fjármál sín verður að koma í ljós. Það hlýtur hins vegar að vera til eftirbreytni þeim stjórnmálaflokkum og - mönnum sem árum saman hafa kallað á breytingar í þessum efnum án þess að
gera neitt sjálfir.

Ekki verður sagt að lýðræðisástin geisli beinlínis af þessum varaþingmanni, þvert á móti mælir hér augljóslega sá sem valdið þykist hafa. Sjálfsagðar kröfur almennings og stjórnarandstöðunnar á þingi eru afgreiddar sem nöldur og mal, yfirgangur og frekja. Og almennt siðferði virðist Guðjón varaþingmaður helst brúka til að gera grín að og þeir sem talað hafa fyrir heiðarleika í stjórnmálum og opnara stjórnkerfi eru að hans dómi barasta ótíndir uppgerðar-lýðskrumarar. Er nema von að menn velti því fyrir sér hvort hugur fylgi máli hjá Framsóknarflokknum í því nauðsynjamáli að opinbera fjármál stjórnmálaflokkanna og ráðamanna til að sporna gegn spillingu, sem sannarlega hefur til að mynda grasserað í stórfelldri einkavæðingu undanfarinna ára. Í þeim efnum öllum hefur hefur Framsóknarflokknum orðið einstaklega vel ágengt og vissulega hefur flokkurinn að stórum hluta haft “forgöngu um þá vinnu”, svo notuð séu digurbarkaleg orð varaþingmannsins hér að ofan, og stýrt henni af mikilli leikni.
Þjóðólfur