Fara í efni

JÁ, HVAR VAR ÖGMUNDUR EIGINLEGA OG HVAR VAR HANN BJÖRN INGI?

Á heimasíðu sinni ræðst Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, að Ögmundi Jónassyni vegna framlags hans á útifundinum í Reykjavík á baráttudegi launafólks, 1. maí. Björn Ingi spyr fyrst með þjósti og varpar síðan nokkrum fúleggjum eins og ungum framsóknarmönnum er svo tamt í seinni tíð. Svona líta kræsingar aðstoðarmanns forsætisráðherra út, orðrétt:
“Hvar hefur Ögmundur Jónasson, formaður BSRB og þingflokksformaður Vinstri grænna, eiginlega verið síðastliðin ár? Óskaplegt svartagallsraus stóð upp úr manninum í hátíðarræðunni á 1. maí. Það er sorglegt til þess að vita að svo fáir hafi ekki mætt í kröfugöngu í áraraðir, en um leið harla skiljanlegt þegar svona skemmtiatriði eru það eina sem boðið er upp á.”

 Að mínum dómi er það meira en skiljanlegt að ræða Ögmundar hafi farið fyrir brjóstið á Birni Inga og kumpánum hans - það er í hæsta máta eðlilegt að talsmenn gróðahyggjuaflanna fari með fúkyrðaflaumi og kalli það svartagallsraus þegar skeleggur talsmaður launafólks bregður upp skýrri mynd af þróun þjóðfélagsins á undanförnum árum undir forystu gróðavæðingarstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Hitt finnst mér aftur á móti fremur lítilmannlegt af Birni Inga ef hann hefur með eggjakasti sínu ætlað að gera lítið úr þeim fjölda fólks sem var á útifundinum og tók af heilum hug undir málflutning Ögmundar og þakkaði framlag hans með lófataki. Vil ég ekki ætla aðstoðarmanninum þá ósmekklegu háttsemi að óathuguðu máli.

Björn Ingi segir að formaður BSRB hafi í ræðu sinni mikið gert úr tíu ára afmælisfögnuði ríkisstjórnarinnar og sagt að ekki hefði farið mikið fyrir kveðjum til launafólks á því afmæli. Ekki hefði verið minnst á atvinnuleysið og ekki velferðarkerfið. Og Björn Ingi tínir til atriði til að sýna fram á að Ögmundur hafi í ræðu sinni á 1. maí hallað réttu máli. Aðstoðarmaður forsætisráðherra er yfir sig heykslaður á meintum óheiðarleika formanns BSRB og segir: “Hvílíkt endemis rugl! Ég var viðstaddur [afmælis]blaðamannafundinn og víst komu þessi mál til umræðu, en hvar var Ögmundur þá?”, spyr Björn. Þeirri spurningu verður Ögmundur að svara sjálfur. Ljóst er hins vegar að hann fór ekki með nein ósannindi um hvað húsbændurnir á stjórnarheimilinu töluðu ekki um á afmælisfundinum, ef marka má umfjöllun Morgunblaðsins 23. apríl síðastliðinn. Það getur Björn Ingi sannreynt ef hann kærir sig um. Afmælisfagnaðinn allan á hann væntanlega greyptan á geisladisk úr skíragulli, ef ég þekki sjálfsupphafninguna á stjórnarheimilinu rétt, og ræðu Ögmundar getur hann nálgast hér á síðunni. Og ef aðstoðarmaðurinn skyldi nú vera svo heppinn að eiga Mbl. frá 23. apríl síðastliðnum langar mig að biðja hann að gjóa amk. öðru auganu og þá til vinstri á miðopnu blaðsins (bls.30-31) þar sem í forystugrein er fjallað um gífurlega fjölgun öryrkja í stjórnartíð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Ljóst er að stór skýring á þessari fjölgun er ríkjandi gróðahyggja, sem ríkisstjórnin hefur kynt undir með öllum tiltækum ráðum, með tilheyrandi fjandsamlegum vinnumarkaði öllum þeim til handa sem ekki er hægt að kreista út úr hámarksafköst og þar með sem allra mestan gróða. Getur verið að þessar dapurlegu staðreyndir skýri að drjúgum hluta minnkandi atvinnuleysi sem ríkisstjórnin og aðstoðarmaðurinn státa sig af í tilefni afmælisins góða?

Í upptalningu sinni á því sem ekki var vikið að á afmælis-blaðamannafundinum sýnist mér hins vegar að Ögmundur Jónasson hefði að ósekju mátt nefna að ekki var fremur rætt um einkavæðingu undanfarinna ára en til að mynda þau svik sem öryrkjar hafa mátt þola af hendi stjórnarherranna, eins og hann réttilega benti á. Enda að sönnu skynsamlegt af stjórnarherrunum að stæra sig ekki mikið um þessar mundir af þessu sérstaka dekurverkefni sínu – einkavæðingunni - þegar sífellt fleirum er að verða ljóst að sú “heillalausn” ríkisstjórnarinnar hefur frá upphafi til enda verið vörðuð einni allsherjar spillingu með tilheyrandi eignatilfærslum til stríðalinnar auðstéttar sem er komin í þau vandræði helst að vita ekki lengur aura sinna tal.

Eftir að hafa tíundað afrek tíu ára ríkisstjórnarsamstarfs í hagvaxtar-, kaupmáttar- og velferðarmálum er niðurstaða Björns Inga Hrafnssonar vitanlega eftirfarandi:

“Það er ekkert upp á ríkisstjórnina að klaga þegar kemur að stöðu launafólks og velferðarkerfinu, en vitaskuld má alltaf gera betur. En ekki er líklegt að Ögmundur Jónasson og svartagallsraus hans muni skipta þar sköpum og það skýrir kannski það hversu fáir sáu sér fært að kíkja niður á Lækjartorg í dag [1. maí] til þess að hlýða á boðskapinn.”

“Hvílíkt endemis rugl!” segi ég og tek mér þar með það bessaleyfi að nýta mér blæbrigðaríkan orðaforða aðstoðarmanns forsætisráðherra. Ég var nefnilega sjálfur “viðstaddur” fjölmennan útifund í Reykjavík á 1. maí. Sá fundur var hins vegar á Ingólfstorgi en ekki á Lækjartorgi eins og aðstoðarmaðurinn fullyrðir hér að ofan. Og er þá vonandi komin skýringin á því hvað Birni Inga fannst fundurinn “sorglega” fámennur. En hvar var Björn Ingi á 1. maí? Var hann virkilega staddur í eigin persónu á mannlausu Lækjartorginu – kolvitlausu torgi - gapandi þar einn og yfirgefinn, standandi í þeirri meiningu að hann væri staddur á baráttufundi launafólks? Það getur varla verið enda á forysta Framsóknarflokksins og meðreiðarsveinar hennar enga samleið með launafólki nú um stundir og þar með ekki heldur mörgum kjósendum flokksins. Ég ætla aftur á móti að leyfa mér að giska á hvar Björn Ingi Hrafnsson ól manninn á þessum ágæta degi. Ég get mér þess til að hann hafi verið að stússa á vinnustað sínum, í Stjórnarráðinu við Lækjargötu, en þar er einmitt útsýni gott yfir Lækjartorgið. Kannski hefur hann - milli þess sem hann kíkti út um gluggann og fylgdist með fámenninu og heyrði óminn af “svartagallsrausinu” á “fundinum” á títtnefndu Lækjartorgi - verið að pakka nýjasta þýfi ríkisstjórnarinnar, Landssíma Íslands, þjóðareigninni, inn í gjafapappír og skrifa á merkispjaldið nöfn fyrirfram valinna einkavina. Hver veit - en eitt er að minnsta kosti næsta víst að hann hefur ekki heiðrað reykvískt launafólk með nærveru sinni á Ingólfstorgi.
Þjóðólfur