Fara í efni

GRÍMSSON MEÐ GRÍMU

Grímuklæddur forseti vor brosti með augunum þegar hann fagnaði íslensku viðskiptaviti í Kína. Umvörpum hafa fátækar sveitastelpur verið sjanghæjaðar til fiskvinnslu í fyrirtæki sem sparar sér allar vélar. Félagi forsetans, grímuklæddur agent segir að stelpur séu ódýrari en maskínur í Kína. Til sveita fást þær á tomboluprís keyptar til vinnu. Sá stýrir fjölþjóðabraskfyrirtæki fiskmangara. Ekkert er íslenskt við það nema hugvitið og forstjórinn með hlutinn sinn.
Stelpurnar eru úr fjarlægum héruðum og lúsarlaunin þeirra hverfa til heimaslóða. Allt lyktar af mannsali og þrælahaldi. Forsetinn og agentinn hafa þó greinilega vitin full af ilmi gróðans, sem fæst af fénýtingu fátæklinga í Kína. Þar er bissniss betri en á Bíldudal!
Stórkostlegt hugmyndaflug, íslenskt hugvit, dæsir forsetinn í grímuna. Agentinn fer hjá sér.

Daginn eftir var forsetinn grímulaus. Þá kynnti hann hugmynd um að Íslendingar fræddu Kínamenn um mannréttindi. Ráðamennina. 

Hættulegra væri að fræða fátækar stelpur í Kína um það hvernig varast ber íslenska arðræningja í fiskverkun.  Varla má fræða um merkingu þrælahalds og mannsals.  Varla má vara Kínverja við grímuklæddum forsetum og  grímuklæddum braskvinum þeirra.
Mannréttindi hvað ?  Er ekki nóg að útbreiða íslenska viðskipatvitið í Kína, grímulaust ? Eða með grímu ?

Baldur Andrésson